Foreldrar í Rimahverfi krefjast aðgerða

Maðurinn hefur tvisvar áður hlotið dóm fyrir ósæmilega hegðun í …
Maðurinn hefur tvisvar áður hlotið dóm fyrir ósæmilega hegðun í garð barna.

Á annað hundrað foreldra í Grafarvogi hafa undirritað bréf þar sem óskað er eftir samráði  stjórnvalda í máli manns sem stundar sjálfsfróun í augsýn barna í Rimahverfi. Maðurinn hefur áður hlotið tvo dóma fyrir slíka hegðun.

„Það væri óskandi ef það væri hægt að fá manninn ofan af þessu athæfi,“ sagði Baldvin Örn Berndsen, formaður foreldrafélags Rimaskóla. 

Í bréfi íbúa til dómsmálaráðherra, barnamálaráðherra og annarra yfirvalda segir meðal annars: „Brotið hefur verið á fjölda barna með reglubundnu athæfi einstaklings sem hefur áður hlotið dóma vegna sama athæfis.“

Rauf skilorð og dæmdur fyrir blygðunarsemisbrot

Árið 2014 var sami maður dæmdur í héraðsdómi Reykjavíkur og þurfti að sitja í 2 mánuði í fangelsi fyrir blygðunarsemisbrot af sama toga. Með brotinu rauf hann skilorð sem hann hlaut í sambærilegu máli sem fór fyrir Hæstarétt árið 2011. Í því máli sakfelldi Hæstiréttur manninn fyrir að særa blygðunarsemi tveggja barna.

Í dómi Hæstaréttar neitaði maðurinn sök en kannaðist hins vegar við að hafa staðið nærri óbyrgðum hlugga í íbúð sinni í fráhnepptri skyrtu einni klæða og lýsti hann því sem svo að hann hefði klórað sér í kynfærum eða gripið um þau í umrætt sinn. Þar sem háttsemi hans var til þess að særa blygðunarsemi þeirra barna sem urðu vitni af því var maðurinn sakfelldur fyrir athæfið. 

Óska eftir tafarlausum aðgerðum 

Í bréfi frá íbúum Grafarvogs er óskað eftir samráði og aðgerðum af hálfu yfirvalda, þar sem undanfarin 15 ár hafi borist fjöldi tilkynninga vegna sama mannsins. 

Bréfið í heild sinni:

Ósk um samráð og tafarlausar aðgerðir til að vernda börn í Rimahverfi í Grafarvogi gegn ítrekaðri kynferðislegri áreitni.

Við undirrituð óskum eftir samráði og aðgerðum við dómsmálaráðherra, barnamálaráðherra, Barnaverndarstofu, Barnavernd Reykjavíkur, Miðgarð, Reykjavíkurborg, umboðsmann barna og Íbúaráð Grafarvogs til að bregðast við langvarandi aðgerðarleysi er varðar öryggi barna í Rimahverfi í Grafarvoginum. 

Í um fimmtán ár hafa tilkynningar borist af ósæmilegri hegðunar eins íbúa hverfisins er varðar brot á blygðunarsemi barna skv. 209 gr. almennra hegningarlaga nr. 1940/19. Brotið hefur verið á fjölda barna með reglubundnu athæfi einstaklings sem hefur áður hlotið dóma vegna sama athæfis. Ekkert lát virðist vera á hegðun viðkomandi og óttumst við að hann haldi gjörðum sínum áfram verði ekki brugðist við með viðeigandi hætti. Umræddur íbúi býr nálægt í nokkurra metra fjarlægð við leikvöll og gönguleið barna í skóla.

Börnin okkar eiga rétt á því að alast upp í öruggu umhverfi. Í lögfestum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir í 34 gr. að aðildarríki skuldbindi sig til að vernda börn fyrir hvers kyns kynferðislegri misnotkun í kynferðislegum tilgangi. Í núgildandi barnalögum nr. 76/2003 segir jafnframt í 1. grein að barn eigi rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Óheimilt er að beita barn hvers kyns ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.

Teljum við, undirrituð að velferð og öryggi barna okkar sé ógnað. Bregðast þarf við strax. Því óskum við eftir viðbrögðum, samráði og aðgerðum að hálfu ofangreindra aðila.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert