Framkoma Vigdísar henni „til minnkunar“

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins. mbl.is/Hari

„Samkvæmt ásökunum sem bornar hafa verið á mig á þessi kona að forðast mig en ekki sækja í að vera þar sem ég er.“

Þetta lét Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, bóka á fundi borgarráðs í gær í kjölfar þess að Helga Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri borgarstjóra, hafði tekið sæti á fundinum með fjarfundabúnaði.

„Það er valdníðsla af formanni borgarráðs, Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, að hleypa skrifstofustjóra borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, Helgu Björg Ragnarsdóttur, inn á fundi þar sem ég, réttkjörin borgarfulltrúi Miðflokksins, hef skyldusetu samkvæmt lögum,“ segir í upphafi bókunar Vigdísar.

Raunar gætir sama orðalags í bókun Vigdísar á fundi borgarráðs um miðjan maí, en andað hefur köldu á milli kvennanna um nokkurt skeið. Helga hafi ásakað Vig­dísi um svo gróft einelti að hún hafi hlotið heilsutjón af. Vig­dísi hafa borist þrjú ábyrgðarbréf heim þar sem hún er bor­in þess­um sök­um, sem hún seg­ir þó ekki geta verið sann­ar.

Friðhelgi heimilis rofin með ábyrgðarpósti

„Í þrígang hefur friðhelgi mín á heimili mínu verið brotin að kvöldi til, þegar ábyrgðarpóstur barst mér með grófum ásökunum um einelti af minni hálfu gegn henni,“ segir í bókun Vigdísar, en hún er áheyrnarfulltrúi í borgarráði.

„Áreitið gegn mér heldur áfram með samþykki formanns borgarráðs, borgarstjóra og meirihlutans með því að hleypa þessari konu á fundi þar sem ég er. Samkvæmt ásökunum sem bornar hafa verið á mig á þessi kona að forðast mig en ekki sækja í að vera þar sem ég er.

Ég mótmæli setu hennar í hvert einasta sinn sem hún mætir á fundi til að verjast áreiti hennar en formaður borgarráðs hefur það að engu. Mitt eina úrræði er því að snúa baki við skrifstofustjóra Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra, til að forðast áframhaldandi áreiti hennar í minn garð,“ lét Vigdís bóka.

Til þessa ráðs hefur borgarfulltrúinn gripið áður og fundar því nú reglulega með bakið í skrifstofustjórann.

Þekkt fyrir árásir á starfsfólk

Borgarráðsfulltrúar meirihlutans lögðu svo fram svohljóðandi gagnbókun:

„Skrifstofustjórum með mál fyrir borgarráði er skylt að fylgja málum sínum eftir og það hefur ekkert með borgarfulltrúa Miðflokksins að gera. Áfram heldur borgarfulltrúinn árásum sínum á starfsfólk sem hann er orðinn þekktur fyrir bæði hjá ríki og borg.

Framkoma borgarfulltrúa er honum til minnkunar og betur færi á því að borgarfulltrúinn sinnti skyldu sinni og stæði vörð um hag Reykjavíkurborgar frekar en að vinna að því að grafa undan innviðum borgarinnar.“

Aðdróttanir gripnar úr lausu lofti

Vigdís segir þá, í sinni eigin gagnbókun, að í bókun meirihlutans komi fram „aðdróttanir og alhæfingar, gripnar úr lausu lofti og máli þeirra til stuðnings vísa þau til fyrrum vinnustaðar míns – Alþingis, án þess að hafa nokkrar staðfestingar máli sínu til stuðnings“.

Með þessum málflutningi kvitti meirihlutinn upp á að taka þátt í eineltismenningu ráðhússins.

„Formaður borgarráðs sem stýrir fundinum gerir ekki athugasemdir við þessar árásir sem kjörinn fulltrúi situr undir, en á samt að vinna jafnt fyrir alla borgarfulltrúa og gæta jafnræðis og sanngirni,“ sagði í gagnbókun Vigdísar.

Kvartanir borist ráðuneyti og forseta Alþingis

Og áfram héldu bókanir og gagnbókanir að fljúga. Nú var komið aftur að borgarráðsfulltrúum meirihlutans:

„Í þá tíð sem Vigdís Hauksdóttir gegndi hlutverki formanns fjárlaganefndar Alþingis bárust ýmsar kvartanir um hegðun hennar gagnvart starfsfólki og embættismönnum. Formlegar kvartanir bárust m.a. fjármálaráðuneytinu og forseta Alþingis um staðhæfingar og orð sem hún hefur látið falla í viðtölum. Fólk hefur einnig kvartað yfir ókurteisi hennar á fundum sem hún stýrir, m.a. Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans og fleiri,“ segir í annarri gagnbókun þeirra.

Ekki þurfi að leita langt að umfjöllun um hegðun Vigdísar í fjölmiðlum. Fólki sé nóg boðið vegna framkomu hennar, segir í bókuninni og vísað um leið til fréttar ríkismiðilsins.

„Sambærilegar lýsingar á hegðun borgarfulltrúans má einnig heyra frá kjörnum fulltrúum, starfsfólki borgarinnar og embættismönnum.“

Óbærilegur eineltiskúltúr í ráðhúsinu

Vigdís lét þá færa til bókar aðra gagnbókun sína og fimmtu og síðustu bókunina um málið. Tekur hún fram að í samráði við lögmann verði vart hjá því komist lengur að hún leiti réttar síns, til að hreinsa æru sína af þeim ávirðingum sem á hana séu bornar af borgarfulltrúum meirihlutans.

„Sá eineltiskúltúr sem ríkir í ráðhúsinu og ríkt hefur lengi er óbærilegur og er farinn að taka á sig alvarlegar myndir. Hér hafa fulltrúar meirihlutans á þessum fundi gengið lengra en nokkru sinni fyrr og rótað upp rógburði fjölmiðla í fyrri störfum mínum.

Fulltrúar meirihlutans bera ábyrgð á orðum sínum og ummæli og vinnubrögð þeirra dæma sig sjálf. Þessi hegðun meirihlutans er dæmigerð fyrir þá meðvirkni sem ríkir um eineltiskúltúr ráðhússins sem ríkt hefur þar um árabil.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert