Það var góður gangur hjá Snjódrífunum í dag þrátt fyrir erfið veðurskilyrði og voru þær búnar að ganga um 25 kílómetra um miðjan dag og voru hvergi nærri hættar þrátt fyrir vont veður. Það var þungt færi í dag, kalt og mikill vindur.
Þær hafa gengið meira en 100 kílómetra frá því þær lögðu af stað sunnudaginn 7. júní og eru því rúmlega hálfnaðar á göngu sinni þvert yfir Vatnajökul. Fyrirhugað er að gangan taki tíu daga en það er háð veðri og vindum.
Leiðin er um 150 kílómetrar en nákvæm lengd fer eftir því hvar drífurnar ganga niður af jöklinum – tveir staðir koma til greina, þeir eru Geldinganes eða Snæfell. Hægt er að fylgjast með ferðalagi þeirra.
„Allur hópurinn er að standa sig mjög vel þrátt fyrir blauta fætur og blöðrur. Við ætlum að ganga meira þrátt fyrir þungt færi. Það var rosalega gleðilegt þegar það birti til um miðjan dag og við sjáum Herðubreið í norðri og Snæfell í austri,“ segir Soffía S. Sigurgeirsdóttir í samtali við mbl.is. Hún missti tánögl fyrr í dag en lætur það ekki stöðva sig.
Snjódrífurnar standa að baki átaksverkefninu Lífskrafti, en markmiðið með Lífskrafti er að safna áheitum fyrir félögin Kraft, félag ungs fólks með krabbamein, og Líf, styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans.
Sirrý Ágústsdóttir er upphafsmanneskja átaksins, en hún greindist með leghálskrabbamein árið 2010 og aftur 2015. Í síðara skiptið var ljóst að krabbameinið væri krónískt og töldu læknar að hún ætti þá eitt til þrjú ár eftir ólifað. Nú eru fimm ár síðan og Sirrý fékk vinkonurnar í Snjódrífum til að fagna lífinu og þessum tímamótum með sér.
Fólk hefur stutt hressilega við bakið á Snjódrífunum og segjast þær vera gríðarlega þakklátar og „meyrar.“ Hópurinn Minn lífskraftur var stofnaður og þar getur fólk fylgst með, tekið þátt og sagt sínar sögur. Þá er búið að skipuleggja fjölda viðburða um allt land til stuðnings Snjódrífunum.
Leiðangursstjórar eru Vilborg Arna Gissurardóttir, pól- og Everestfari, og Brynhildur Ólafsdóttir, Landvættaþjálfari og fjallaleiðsögumaður. Verndarar göngunnar eru afi Sirrýjar, Gunnar Þórðarson á Borg í Arnarfirði, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra og yfirmaður almannavarna.
Auk Sirrýjar, Vilborgar og Brynhildar skipa Snjódrífurnar Anna Sigríður Arnardóttir, Birna Bragadóttir, Heiða Birgisdóttir, Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Hulda Hjálmarsdóttir, Karen Kjartansdóttir, Soffía S. Sigurgeirsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir.
Nánari upplýsingar um gönguna og styrktarnúmer fyrir Lífskraft má finna á Facebook-síðu átaksins.