Gerir ekki athugasemd við störf Bjarna

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gerir ekki athugasemd við störf fjármálaráðherra og starfsmanna fjármálaráðuneytisins í tengslum við ráðningu Þorvaldar Gylfasonar í starf ritstjóra norræna fræðiritsins Nordic Economic Policy Review. Málið var til umræðu í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Katrín sagði það beinlínis hlutverk ráðuneytisins að koma að ráðningunni. Norrænu ráðuneytin kæmu sér saman um fulltrúa og allir fjármálaráðherrar aðildarríkjanna gætu haft skoðun á því hver væri á endanum skipaður.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, fór hörðum orðum um vinnubrögð fjármálaráðherra í fyrirspurn sem hann beindi til forsætisráðherra. „Ég hirði ekki um að telja upp þá flokksgæðinga sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur raðað á jötuna gegnum árin, oft beinlínis vegna skoðana sinna og þrátt fyrir að vanhæfið hafi lekið af þeim,“ sagði Logi.

 Sagði hann forsætisráðherra ítrekað hafa þurft að kyngja hneykslismálum og hagsmunaárekstrum Sjálfstæðisflokksins og spurði skipunin kæmi til með að hafa einhverjar afleiðingar eða hvort litið yrði fram hjá henni eins og áður.

Tekur ekki afstöðu til skipunarinnar

Greint var frá því í vikunni að fjármálaráðuneytið íslenska hefði komið í veg fyrir að Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði, yrði ráðinn í umrædda ritstjórnarstöðu en honum hafði þá þegar verið boðin staðan. Í tölvupósti sem starfsmaður ráðuneytisins sendi til erlendra kollega sinna segir að ráðuneytið geti ekki mælt með Þorvaldi enda væri hann formaður stjórnmálaflokks. Sú fullyrðing var röng. Hann stofnaði flokkinn Lýðræðisvaktina vorið 2013 en sagði sig síðar úr stjórn flokksins eftir að hafa mistekist að komast á þing í kosningunum sama vor. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var til viðtals um málið í fréttum Ríkisútvarpsins í gær en þar sagði hann Þorvald „tæplega eiga samleið með ráðuneyti Bjarna“. 

Katrín sagðist ekki taka neina afstöðu til þess hver hefði átt að vera ráðinn. „Þegar kom að vali á núver­andi rit­stjóra á þessum fundi sem ég vitna til var óskað eftir til­lögum frá fjár­mála­ráðu­neytum Norð­ur­land­anna og sam­kvæmt mínum upp­lýs­ingum vildi fjár­mála­ráðu­neyti Íslands sér­stak­lega horfa til þess að það væri valin kona í þetta emb­ætti. Það kemur fram í fund­ar­gerð að stýri­hóp­ur­inn hefði ein­göngu rætt karla og lagt var til að ein­hver myndi gera atlögu að því að hugsa upp kven­kyns kandídata. Og mér skilst að slík til­laga hafi farið frá íslenska fjár­mála­ráðu­neyt­inu í þennan stýri­hóp,“ sagði Katrín. Svo fór þó að sænskur karlmaður var skipaður ritstjóri tímaritsins, Harry Flam prófessor við Stokkhólmsháskóla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert