Kona þurfti að gangast undir aðgerð á andliti eftir að hundur beit hana í miðbæ Reykjavíkur miðvikudagskvöldið 3. júní og lá hún á sjúkrahúsi í tvo daga í kjölfarið.
Konan, sem mbl.is ræddi við en vill ekki koma fram undir nafni, segist hafa nálgast hundinn, sem var einsamall og bundinn við staur við Vesturgötu, og ætlað að klappa honum en að hann hafi bitið hana illa í andlitið.
Hún man illa hvað gerðist í kjölfarið, en hún var á ferð með vinkonu sinni sem hringdi í Neyðarlínuna. Lögregla og sjúkrabíll komu á staðinn og var konan flutt á slysadeild þar sem hún gekkst undir aðgerð.
Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við mbl.is að málið hafi komið inn á borð lögreglu og að því hafi verið vísað áfram til hundaeftirlitsins.
Konan er komin heim til sín og er á batavegi.