Dómsmálaráðherra hefur óskað eftir því að sendiherra Íslands gagnvart Evrópusambandinu kalli eftir áliti sambandsins vegna hugsanlegrar opnunar ytri landamæra Íslands 1. júlí.
Þetta kom fram í máli Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur á upplýsingafundi vegna opnunar landamæra Íslands gagnvart öðrum Schengen-ríkjum 15. júní.
Þar sagði Áslaug Arna að til hafi staðið að landamæri Íslands yrðu öllum opnuð nú 15. júní en að ýmsum ástæðum hafi reynst nauðsynlegt að fresta opnun þeirra fyrir öðrum en farþegum frá Schengen-svæðinu.
Dómsmálaráðherra hefur þó undirritað tilskipun sem kveður á um undanþágu frá lokun ytri landamæra Schengen og munu því t.d. námsmenn og erlendir sérfræðingar geta komið til landsins frá ríkjum utan Schengen.
Til skoðunar er m.a. að opna ytri landamæri Íslands, en meina ferðamönnum sem koma frá löndum utan Schengen-svæðisins að halda áfram ferðalagi til annarra Schengen-ríkja frá Íslandi. Þá hefur komið til umræðu að Schengen-ríkin sammælist um lista yfir ríki utan svæðisins sem opna megi fyrir.
Sagðist Áslaug gjarnan geta gefið meira afgerandi svör varðandi opnun landamæra Íslands og að hún myndi beita sér í því að móta skýra stefnu í þeim málum.