Sonur Tryggva Rúnars krefst bóta

Tryggvi Rúnar Leifsson (t.h.) kemur frá réttarhöldunum í sakadómi á …
Tryggvi Rúnar Leifsson (t.h.) kemur frá réttarhöldunum í sakadómi á áttunda áratugnum.

Blóðsonur Tryggva Rúnars Leifssonar, Arnar Þór Vatnsdal, krefst 85 milljóna í bætur á grundvelli laga um heimild forsætisráðherra til að greiða bætur vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Kröfunni er beint að forsætisráðherra og staðfestir Katrín Jakobsdóttir við Fréttablaðið að krafan hafi verið móttekin. Henni hafi verið vísað til setts ríkislögmanns sem hafi hana til skoðunar.

Arnar Þór er fæddur árið 1973 og var tveggja ára gamall þegar faðir hans var hnepptur í gæsluvarðhald vegna rannsóknar á hvarfi Guðmundar Einarssonar. Tryggvi Rúnar var látinn laus úr fangelsi í lok árs 1981, þegar sonur hans var á áttunda aldursári. Hann var ættleiddur árið 1985, þá tólf ára gamall.

Samkvæmt erfðalögum fellur erfðaréttur niður við ættleiðingu en í lögum um bætur vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála er ekki minnst á rétt erfingja heldur eftirlifandi maka og barna.

Nánar er fjallað um málið í Fréttablaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert