Helga Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri Reykjavíkurborgar, segir súrrealíska atburðarás hafa átt sér stað síðan dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur fór hörðum orðum um athæfi hennar í máli þar sem borgin var dæmd til að greiða fjármálastjóra borgarinnar skaðabætur vegna slæmrar framkomu Helgu.
Með dómi héraðsdóms var einnig felld úr gildi áminning sem Helga hafði veitt fjármálastjóranum. Tilefni hennar voru tvö tilvik sem skrifstofustjórinn taldi brot á starfsskyldum fjármálastjórans; annars vegar varðandi upplýsingaveitingu á styrkjum og vegna vinnslu launaáætlunar hins vegar. Dómari hafnaði öllum ávirðingum og dæmdi þær og áminninguna ólögmætar.
Í opinni færslu á Facebook nefnir Helga að um þessar mundir séu tvö ár frá því dómurinn féll.
„Ég kom fyrir dóminn sem vitni en ekki aðili máls, og hafði því hvorki kost á að hlusta á né bregðast við ummælum eða ásökunum í minn garð sem fram komu undir rekstri málsins. Ég varð þess þó áskynja af viðmóti og spurningum dómara og lögmanna þegar ég kom fyrir dóminn að ég hefði verið borin þungum sökum og að m.a. hefðu komið upp ásakanir um að ég hefði lagt starfsmann í einelti á vinnustaðnum,“ skrifar Helga.
„Niðurstaða dómsins er sem fyrr segir að áminningin skuli felld úr gildi, en þar er jafnframt fjallað um mig með afar óvenjulegum hætti. Þó skýrt komi fram að ég hafi verið hæf til að veita umrædda áminningu og þar með hafi óvild eða einelti ekki búið að baki, er þar að finna gildishlaðnar og meiðandi fullyrðingar þar sem mér er m.a. líkt við hringleikahússtjóra og áréttað að mér beri að sýna mér eldra fólki sérstaka virðingu.“
Vísar Helga meðal annars til eftirfarandi orða í niðurstöðu dómsins:
„Um þá skilyrðislausu hlýðni sem skrifstofustjórinn virðist ætla af stefnanda verður sagt það eitt að þrátt fyrir stjórnunarrétt annars og hlýðniskyldu hins eru undirmenn ekki dýr í hringleikahúsi yfirmanna sinna.“
Einnig sagði í dóminum að líta mætti á framkomu skrifstofustjórans sem lítilsvirðingu við starfsmanninn, sem hafi verið töluvert eldri en skrifstofustjórinn og með yfir 35 ára reynslu af fjármálatengdum störfum. Hann hafi gegnt stöðu fjármálastjóra ráðhússins í rúm 10 ár og starfað þar tvöfalt lengur en skrifstofustjórinn.
Helga Björg bendir í dag á að Reykjavíkurborg hafi ákveðið áfrýja ekki dóminum. Ákvörðun hans og ályktanir um stjórnunarhætti hennar standi því óhreyfðar.
„Í kjölfarið gerði ég ítrekaðar tilraunir til að fá stjórnunarhætti mína rannsakaða, m.a. með ósk um eineltisrannsókn og úttekt á eigin stjórnunarháttum en við því var ekki orðið m.a. með vísan til þess að ekki væri tilefni til slíkra úttekta,“ skrifar Helga.
„Síðan þá hefur átt sér stað samfelld og súrrealísk atburðarás sem ég hef haft takmarkaða möguleika á að bregðast við. Óvægin og gildishlaðin orð dómarans hafa ítrekað verið dregin fram í opinberri umræðu, á vettvangi borgarráðs, borgarstjórnar og á samfélagsmiðlum.
Í þessu samhengi er mikilvægt að taka fram að sem embættiskona get ég ekki rökrætt við kjörna fulltrúa á opinberum vettvangi, enda ber mér að vinna með fulltrúum allra flokka og framkvæma ákvarðanir þeirra. Allar mótbárur við ávirðingum kjörinna fulltrúa gætu rofið þann trúnað sem þarf að vera til staðar gagnvart núverandi borgarfulltrúum og borgarfulltrúum framtíðar,“ bætir Helga við, en hún hefur að undanförnu átt í miklum samskiptaörðugleikum við Vigdísi Hauksdóttur borgarfulltrúa Miðflokksins.
„Ég reyndi öll úrræði sem starfsfólki borgarinnar á almennt að standa til boða án þess að niðurstaða fengist í mál mitt. Ég hef átt erfitt með að skilja og sætta mig við að þetta geti verið raunveruleikinn. Að ég eigi engar leiðir til að verjast þessum þungu og gildishlöðnu orðum sem þar að auki voru dregin upp aftur og aftur af hálfu borgarfulltrúa með undirtektum fjölmiðla,“ skrifar Helga áfram.
„Fyrir ári síðan var mér bent á að ég gæti sent erindi til siðaráðs dómarafélagsins vegna ummæla í minn garð í dómnum, bæði vegna þess að þau voru óvægin og meiðandi og langt frá því að gefa rétta mynd af aðstæðum, en eins vegna þess hversu mikil áhrif umfjöllun um dóminn hafði haft á mig, aðstæður mínar og fjölskyldu.“
Hún hafi sent ráðinu erindi sem afgreitt hafi verið með áliti í febrúar síðastliðnum. Segir hún að í bréfi frá siðaráðinu komi fram að álitið sé veitt með hliðsjón af erindinu, athugasemdum dómarans og dóminum sjálfum, einkum með vísan til 3. mgr. 2. gr. siðareglnanna, þar sem segir:
„Dómarar skulu gæta óhlutdrægni í störfum sínum gagnvart öllum sem eiga hagsmuna að gæta og koma að dómsmáli á einhvern hátt. Í því felst meðal annars að sinna starfi sínu án fordóma og virða jafnræði aðila í hvívetna með meðferð máls og endanlega úrlausn þess.“
Helga rekur svo hluta álitsins:
„Í úrlausnum sínum kunna dómarar að þurfa að taka afstöðu til staðhæfinga um misbresti í fari nafngreindra aðila. Úrvinnsla á slíkum atriðum byggist ætíð á gögnum máls og framburðum aðila og vitna fyrir dómi. Gæta ber hófsemi og sýna öllum sem koma við sögu fulla virðingu. Ekki er viðeigandi að í forsendum dóma sé hæðst að mönnum eða málefnum eða gert lítið úr þeim. Sömu hófsemi og virðingar ber að gæta í umfjöllun um sönnunargögn sem færð eru fram og málsástæður sem aðilar máls byggja á.“
Hún segir siðaráðið samkvæmt þessu telja erindi hennar gefa efni til að brýna fyrir dómurum að gæta virðingar og hófsemi gagnvart öllum einstaklingum sem að dómsmálum komi með einum eða öðrum hætti.
„Álitið er mér mikils virði, í ljósi þeirra áhrifa sem meiðandi ummæli dómsins hafa haft á líf mitt undanfarin tvö ár.
Ég mun nú leggja málið til hliðar, en finnst mikilvægt að deila þessum upplýsingum með ykkur sem sum hver hafið fylgst með málinu úr fjarlægð, sent mér kveðjur og stappað í mig stálinu undanfarin tvö ár.
Að lokum þá vil ég þakka fjölskyldu minni, vinum, samstarfsfólki og ekki síst vinkonum, reiðum og minna reiðum fyrir vináttuna, stuðninginn og umburðarlyndið því án ykkar hefði þetta verið svo miklu, miklu erfiðara.“