Ráða má, af lestri yfirlýsingar Helgu Bjargar Ragnarsdóttur, skrifstofustjóra borgarstjóra og borgarritara, að hún viðurkenni ekki niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli þar sem áminning hennar á hendur fjármálastjóra borgarinnar var felld úr gildi.
Þetta fullyrðir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, í yfirlýsingu sem hún birtir á Facebook.
Helga Björg rifjaði fyrr í dag upp dóminn, sem féll fyrir tveimur árum, þar sem dómarinn fór hörðum orðum um athæfi hennar. Benti hún á að „óvægin og gildishlaðin orð dómarans“ hefðu ítrekað verið dregin fram í opinberri umræðu, á vettvangi borgarráðs, borgarstjórnar og á samfélagsmiðlum.
Helga meti því mikils það álit, sem siðaráð Dómarafélags Íslands gaf út í febrúar eftir að hafa fengið erindi frá henni. Túlkar hún álitið sem svo að erindið gefi efni til að brýna fyrir dómurum að gæta virðingar og hófsemi gagnvart öllum einstaklingum sem að dómsmálum komi með einum eða öðrum hætti.
Í færslu sinni segist Vigdís spyrja sig hvers vegna „eðlileg leið var ekki farin innan dómskerfisins og málinu áfrýjað til æðra dómstigs. Þess í stað var dómnum unað og Reykjavíkurborg greiddi bætur auk alls málskostnaðar“.
Vigdís heldur áfram:
„Í öðru lagi má nefna að þrátt fyrir skýra niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í þessu máli þar sem áminning Helgu Bjargar Ragnarsdóttur var dæmd ólögmæt, hélt hún starfi sínu án áminningar en hins vegar var fjármálastjóri ráðhússins færður til í starfi. Eina sem ég gerði var að vitna orðrétt í dómsniðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem allir vita að eru opinber gögn og höfðu þá þegar verið birt í fjölmiðlum og fjallað um þau þar,“ skrifar Vigdís.
„Síðan þá hef ég legið undir ásökunum og persónulegum árásum með þremur hótunarbréfum sem mér voru send í ábyrgðarpósti að kvöldi til á heimili mitt – þar sem mér var hótað að vera dregin fyrir siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir það eitt að hafa vitnað í dóminn,“ skrifar Vigdís.
„Þessi vinnubrögð eru tilburðir til þöggunar og til þess fallin að koma í veg fyrir ríka eftirlitsskyldu kjörinna fulltrúa. Málinu er ekki lokið af minni hálfu enda hef ég ríka lagaskyldu sem kjörinn fulltrúi.“
Færsla Vigdísar er aðeins nýjasti kaflinn í langri deilu þeirra á milli. Helga hefur áður ásakað Vigdísi um svo gróft einelti að hún hafi hlotið heilsutjón af. Vigdísi hafa svo borist þrjú ábyrgðarbréf heim þar sem hún er borin þessum sökum, sem hún segir þó ekki geta verið sannar. Hefur hún gripið til þess ráðs að snúa baki í skrifstofustjórann þegar þær sitja fundi saman.