Tuttugu komur farþegaskipa til Reykjavíkur eru áætlaðar í júlí. Enn er óljóst hvort af öllum þessum komum verður.
Gyða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri North Atlantic Agency og talsmaður Cruise Iceland, segir að líkurnar á því að skemmtiferðaskip komi til landsins séu meiri nú en fyrr í sumar þar sem línur varðandi skimanir séu farnar að skýrast. Staðan breytist þó í hverri viku.
Um er að ræða skemmtiferðaskip sem taka 1.000 til 2.400 farþega og minni skemmtiferðaskip sem kallast leiðangursskip og taka allt að 500 farþega.
Allir ferðamenn sem koma til landsins með skemmtiferðaskipum verða prófaðir fyrir kórónuveirunni rétt eins og þeir sem koma með flugi.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag telur Gyða mestar líkur á því að þýskir ferðamenn fari að koma til landsins með skemmtiferðaskipum á næstunni.