Vill taka upp varaflugvallagjald

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar mælir með því að tekið verði upp hóflegt varaflugvallagjald sem renni til uppbyggingar alþjóðlegra fluggátta. 

Þetta kemur fram í nefndaráliti um þingsályktunartillögu um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020 til 2024.

Í nefndarálitinu segir að eitt af þeim verkefnum til að ná markmiði um greiðar samgöngur í samgönguáætluninni sé að taka gjaldið upp.

„Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram hafa komið um að eðlilegt sé að notendur Keflavíkurflugvallar og varaflugvalla landsins beri hluta af þeim kostnaði sem þarf til þess að þeir geti sinnt öryggishlutverki sínu með fullnægjandi hætti svo að sjaldnast þurfi að líta til flugvalla í nágrannalöndum í öryggisskyni,“ segir í álitinu.

Egilsstaðaflugvöllur.
Egilsstaðaflugvöllur. mbl.is/Sigurður Bogi

Í þessu felist oft umtalsverður sparnaður í eldsneytisnotkun. Með hóflegri innheimtu gjalda væri hægt að standa undir uppbyggingu og rekstri Egilsstaðaflugvallar sem meginvaraflugvallar og efla aðra varaflugvelli.

„Nefndin beinir þeim tilmælum til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins að það hafi samráð við önnur ráðuneyti og Isavia um það með hvaða hætti og hvenær þessum greiðslum verði komið á, þegar aðstæður í flugrekstri leyfa í kjölfar áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru,“ segir í álitinu.

Nefndin leggur til að þau mál sem fjallað er um í álitinu verði samþykkt með þeim breytingum sem eru lagðar til á sérstökum þingskjölum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert