Jarðskjálfti af stærðinni 3,5 varð um 3,7 kílómetrum norður af Grindavík laust fyrir klukkan hálfníu í kvöld og fannst hann í bænum.
Skjálftinn er hluti af jarðskjálftahrinu sem stendur yfir í nágrenni Grindavíkur og hefur virkni verið viðvarandi þar síðan 30. maí, að því er kemur fram í athugasemdum jarðvísindamanns hjá Veðurstofu Íslands.
Um 2.000 skjálftar hafa verið staðsettir þar síðan þá, aðallega smáskjálftar, en nokkrir stærri skjálftar hafa einnig orðið á þessu svæði og fundist í Grindavík.
Hulda Rós Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að rúmlega 700 skjálftar hafi mælst á svæðinu í dag og sá sem varð í kvöld, 3,5 að stærð, er sá stærsti. Í morgun, rétt fyrir klukkan 7, gekk skjálfti upp á 2,9 yfir svæðið og fannst hann einnig í bænum.
Samkvæmt nýjum gögnum eru vísbendingar um að landris sé hafið að nýju við fjallið Þorbjörn. Hulda Rós bætir við að land hafi risið um 12 sentímetra frá janúar þangað til í maí og vísar þar í fund vísindaráðs almannavarna sem var haldinn í gær.
Vísbending er um að komið hafi þriðja innskot við Þorbjörn og virðist það af svipuðu dýpi og fyrri innskot, eða á um þriggja til fjögurra kílómetra dýpi.