3,5 stiga skjálfti og 12 cm landris

Bláa lónið með fjallið Þorbjörn á hægri hönd. Landris hefur …
Bláa lónið með fjallið Þorbjörn á hægri hönd. Landris hefur verið undir Reykjanesi við Þorbjörn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jarðskjálfti af stærðinni 3,5 varð um 3,7 kíló­metr­um norður af Grinda­vík laust fyr­ir klukk­an hálf­níu í kvöld og fannst hann í bæn­um.

Skjálft­inn er hluti af jarðskjálfta­hrinu sem stend­ur yfir í ná­grenni Grinda­vík­ur og hef­ur virkni verið viðvar­andi þar síðan 30. maí, að því er kem­ur fram í at­huga­semd­um jarðvís­inda­manns hjá Veður­stofu Íslands.

Um 2.000 skjálft­ar hafa verið staðsett­ir þar síðan þá, aðallega smá­skjálft­ar, en nokkr­ir stærri skjálft­ar hafa einnig orðið á þessu svæði og fund­ist í Grinda­vík.

Rúm­lega 700 skjálft­ar í dag

Hulda Rós Helga­dótt­ir, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands, seg­ir að rúm­lega 700 skjálft­ar hafi mælst á svæðinu í dag og sá sem varð í kvöld, 3,5 að stærð, er sá stærsti. Í morg­un, rétt fyr­ir klukk­an 7, gekk skjálfti upp á 2,9 yfir svæðið og fannst hann einnig í bæn­um.

Sam­kvæmt nýj­um gögn­um eru vís­bend­ing­ar um að landris sé hafið að nýju við fjallið Þor­björn. Hulda Rós bæt­ir við að land hafi risið um 12 sentí­metra frá janú­ar þangað til í maí og vís­ar þar í fund vís­indaráðs al­manna­varna sem var hald­inn í gær.

Vís­bend­ing er um að komið hafi þriðja inn­skot við Þor­björn og virðist það af svipuðu dýpi og fyrri inn­skot, eða á um þriggja til fjög­urra kíló­metra dýpi.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert