Eldgos brjótist út í lok jökulhlaups

Vatnajökull. Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls.
Vatnajökull. Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls. mbl.is/RAX

Vísindaráð almannavarna segir að vatnsborð í Grímsvötnum standi fremur hátt, auk þess sem kvikuþrýstingur sé hár í kvikuhólfinu undir öskjunni.

„Því verður að gera ráð fyrir þeim möguleika að eldgos brjótist út í lok jökulhlaups, sem gæti orðið á næstu vikum eða mánuðum.  Alls ekki er víst svona fari, jökulhlaup á næstunni þarf ekki að leiða til eldgoss,“ segir vísindaráðið.

Vegna aðstæðna í Grímsvötnum hefur vísindaráð ákveðið að fara betur yfir stöðu mála í næstu viku.

Ráðið greinir frá því að algengt sé að 5 til 10 ár séu á milli gosa í Grímsvötnum. Síðast gaus þar árið 2011.

„Á þeim tíma sem liðinn er frá gosinu benda aflögunarmælingar til þess að kvika hafi safnast fyrir og þrýstingur í kvikuhólfi aukist. Jarðhiti á yfirborði fer einnig vaxandi og í síðustu viku mældu starfsmenn Veðurstofunnar SO2 í suðvesturhorni Grímsvatna, nærri þeim stað þar sem gaus 2004 og 2011.  Þetta er í fyrsta sinn sem SO2 mælist í svo miklu magni í eldstöð á Íslandi án þess að eldgos sé í gangi og er vísbending um grunnstæða kviku,“ segir vísindaráð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert