Allstór hópur fólks var samankominn á Keflavíkurflugvelli í dag, en þar fór fram æfing fyrir sýnatökur ferðamanna sem hefjast á mánudag, 15. júní. Fimm leikarar brugðu sér í hlutverk flugfarþega og fóru í gegnum sama ferli og allir farþegar, sem hingað koma til lands, þurfa að ganga í gegnum frá og með mánudegi.
Fyrsta skrefið er að fylla út sérstakt eyðublað með heilsufarsupplýsingum, símanúmeri, dvalarstað á Íslandi og fleira. Mælt er með því að farþegar geri það áður en lagt er af stað í gegnum heimasíðuna heimkoma.covid.is, en einnig eru sérstakar tölvur á flugvellinum þar sem hægt er að gera það.
Að svo búnu héldu leikararnir upp á efri hæð flugvallarins, þar sem farþegar úr Ameríkuflugi koma venjulega inn í landið. Þar er búið að koma upp tíu skimunarbásum. Að sögn Jórlaugar Heimisdóttur, verkefnastjóra sýnatökunnar, verður hver bás mannaður tveimur starfsmönnum, einum heilbrigðisstarfsmanni og einum starfsmanni Öryggismiðstöðvarinnar af Keflavíkurflugvelli sem hefur fengið þjálfun í sýnatöku. „Smekklegt. Það er bara eins og þessir básar hafi alltaf verið hérna,“ sagði Alma Möller landlæknir þegar hún fékk að berja glæsismíðina augum.
Sýnatakan tekur um 2-3 mínútur og að svo búnu eru ferðamennirnir frjálsir ferða sinna. Þeir þurfa ekki að halda sig heima við meðan beðið er eftir niðurstöðu sýnatökunnar, þótt mælt sé með því að þeir forðist óþarfa umgengni á almannafæri, útskýrir Rögnvaldur Ólafsson hjá almannavörnum á meðan hann gengur um mannlaust móttökusvæðið og bíður eftir leikurunum. Niðurstaða úr sýnatökunni berst innan sólarhrings; þeir sem greinast neikvæðir fá tilkynningu í rakningarapp almannavarna en hringt verður í alla þá sem greinast smitaðir. Gert er ráð fyrir að hægt verði að afgreiða heila vél á um 40 mínútum.
Sýnatakan um allt land er í höndum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en starfsmenn frá Íslenskri erfðagreiningu koma að verkinu auk fyrrnefndra starfsmanna Öryggismiðstöðvarinnar.