Bylting varð á strætisvagnaverkstæði Strætós á Hesthálsi fyrir tveimur vikum þegar þar tók til starfa fyrsta konan í sögu vinnustaðarins. Þessi kona var í þokkabót enginn aukvisi, nýútskrifaður bifvélavirki frá Borgarholtsskóla og langefst í sínum árgangi með 9,16 í einkunn.
Hún heitir Ingibjörg Eir Sigurðardóttir og er 27 ára Reykvíkingur. Hún er hin sáttasta og segir strákana á verkstæðinu taka vel á móti sér.
„Það voru fyrst sumir hissa á að hafa allt í einu kvenmann á verkstæðinu og ég fékk eitt og eitt „ha“ fyrir að vera kona og bifvélavirki. En mér finnst þetta bara gaman. Það er gaman að vera öðruvísi,“ segir Ingibjörg í samtali við Morgunblaðið. Hún mun starfa hjá Strætó út nematímann sinn allt þar til hún tekur sveinsprófið og eftir það hyggur hún líklega á frekara nám í bifvélavirkjun. Ingibjörg var á meðal sjö kvenna sem hófu nám í bifvélavirkjun en það kvarnaðist úr hópnum og þær útskrifuðust þrjár.
Áður var Ingibjörg að læra lyfjafræði í háskólanum en fann sig ekki þar, að því er fram kemur í samtala við hana í Morgunblaðinu í dag.