Smitaðir þjófar ekki búsettir á Íslandi

Lögreglan á Selfossi hefur misst tíu starfsmenn í sóttkví.
Lögreglan á Selfossi hefur misst tíu starfsmenn í sóttkví. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Tveir erlendir einstaklingar, sem komu hingað til landsins fyrir fjórum dögum og áttu því samkvæmt sóttvarnalögum að fara rakleiðis í tveggja vikna sóttkví, greindust með COVID-19 í haldi lögreglunar á Selfossi í dag. Þeir voru skimaðir fyrir sjúkdómnum eftir að lögreglu varð kunnugt um hve nýlega þeir höfðu komið til landsins.

Þeir voru í haldi af því að þeir höfðu gerst uppvísir að öðru lögbroti, sem sagt búðarhnupli í nokkrum verslunum, þar á meðal í sportvöruverslun á Suðurlandi. Samtals voru þeir þrír sem voru handteknir, en einn var ekki með COVID-19.

Þessir einstaklingar eru að sögn Odds Árnasonar yfirlögregluþjóns á Selfossi í einangrun í fangaklefa þessa stundina að beiðni sóttvarnalæknis. Þegar kom á daginn að þeir væru með COVID-19 urðu tíu lögregluþjónar á Selfossi að fara í sóttkví og fjórir frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Verið er að athuga mótefni í blóði einstaklinganna, sem á að varpa ljósi á það hvort smit þeirra séu virk.

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Selfossi.
Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Selfossi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Oddur segir aðspurður að þessi atburðarás hafi komið á óvart. „Menn eiga ekki von á þessu þegar fólk sem er að koma á að fara í sóttkví. Við gátum átt von á þessu eftir að landið opnaði en við töldum okkur vera í skjóli fyrir þessu með lokað land. Það vorum við greinilega ekki,“ segir Oddur.

Einstaklingarnir sem um ræðir búa ekki á Íslandi. Oddur segir hluta rannsóknarinnar beinast að því að varpa betra ljósi á tildrög ferðar þeirra til landsins. Þremenningarnir komu til landsins ásamt þremur enn, sem nú er leitað vegna sóttvarnasjónarmiða.

Tíu lögregluþjónar eru að sögn Odds grunnurinn að þeirri vakt sem er til staðar á Selfossi, þannig að færa þarf til menn frá öðrum stöðvum í umdæminu til þess að manna vaktirnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert