Rauði krossinn opnar að nýju sóttvarnahús við Rauðarárstíg í dag og verður það starfrækt á meðan þurfa þykir. Sjúkratryggingar Íslands hafa einnig óskað eftir því að Rauði krossinn sjái um rekstur á slíkum húsum á Akureyri og Egilsstöðum.
Sóttvarnahúsinu, sem er Íslandshótelið á Rauðarárstíg og fékk viðurnefnið farsóttarhúsið, var lokað í maí en verður opnað aftur áður en ferðamenn byrja að streyma til landsins á morgun. Fyrst um sinn munu sjálfboðaliðar sjá um vaktir í húsinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum.
„Sjálfboðaliðar og starfsfólk er tilbúið til að sinna þessu sem verkefni, sem var og er krefjandi. Það gekk afar vel í vetur og ég þess fullviss að svo verði líka nú“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.
Íslenska ríkið tók Íslandshótel á Rauðarárstíg að leigu í lok febrúar og var húsið fyrstu tvær til þrjár vikurnar nýtt sem sóttvarnahús, þ.e. þangað fór fólk, gjarnan ferðamenn sem höfðu ekki í önnur hús að venda, í sóttkví. Eftir það hafi húsinu verið breytt í farsóttarhús þar sem fólk, sem er með veiruna, dvelur. Gylfi Þór Þorsteinsson verður umsjónarmaður hússins líkt og áður.