Göngudeild Landspítala í Birkiborg, sem var undirlögð meðferð covid-sjúklinga á meðan faraldurinn reið yfir, hefur legið í láginni síðasta mánuð en var ræst aftur í dag.
Það var í fyrsta sinn í dag sem smitaðir einstaklingar fóru inn í húsakynni sjúkrahússins síðan síðasta covid-sjúklingnum batnaði 13. maí. Það voru rúmenskur karl og kona sama þjóðernis, sem staðin voru að þjófnaði á Selfossi fyrir helgi. Við handtökuna kom á daginn að þau áttu að vera í sóttkví og voru þá tekin sýni úr fólkinu, sem reyndust jákvæð.
Þau komu til skoðunar á deildinni í dag og til þess var kallað út heilbrigðisstarfsfólk sem hefur séð um rekstur deildarinnar í faraldrinum. Ekki var talin ástæða til að vista fólkið á sjúkrahúsi, heldur var það sent áfram til dvalar í farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg. Þar verður áfram fylgst með líðan þeirra og þau kölluð inn á sjúkrahús ef þurfa þykir.
Með ræsingu göngudeildarinnar í dag var tekið forskot á það fyrirkomulag sem tekur við á Landspítalanum nú á morgun með nýju fyrirkomulagi landamæraeftirlits, segir Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans.
Anna segir að héðan í frá verði einstaklingar sem greinast með COVID-19 kallaðir inn á göngudeildina, hvort sem þeir eru erlendir eða íslenskir. Þetta er ólíkt því sem verið hefur, að látið sé duga að eiga samskipti við hina smituðu í síma og tryggja þar með að innlagnar sé ekki þörf. Markmiðið með að fá fólk inn á deild sé að tryggja góð samskipti og miðla fræðslu um sjúkdóminn. Símtalsaðferðin kann að vera ófullnægjandi þegar um erlenda aðila er að ræða.
Áður en Rúmenarnir komu við á göngudeildinni höfðu þeir verið í haldi lögreglu á Selfossi vegna búðarþjófnaðar og brota á sóttvarnalögum. Í tengslum við sama mál eru fjórir aðrir rúmenskir einstaklingar í haldi lögreglu og einn þeirra hafði verið í slagtogi við hina smituðu þegar þeir voru handteknir fyrir þjófnaðinn. Sex annarra er leitað sem komu til landsins fyrir meira en viku, en sá hópur er talinn hafa tengsl við þau sem þegar eru í haldi.
Lögreglan talar um að þetta fólk tengist skipulagðri glæpastarfsemi hópa sem koma til landsins gagngert til þess að stunda glæpi á borð við innbrot og þjófnað. Kórónuveirusmit hafa gefið málinu nýja vídd, þar sem fólks er ekki aðeins leitað fyrir nefnda glæpi, heldur einnig af sóttvarnasjónarmiðum.