Kári opnar sig um kvíðann

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Eggert Jóhannesson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir hollt að geta talað um það þegar manni líður illa. Hann var gestur í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar á dögunum. „Þegar ég var svona 21-23 ára var ég svolítið kvíðinn. Þá fór ég í gegnum tímabil þar sem mér hefði gagnast að geta talað um það. En það hvarflaði ekki að nokkrum manni að tala um hvað hann væri kvíðinn þá,“ segir Kári.

Hann segir kvíða vera náttúrulegan hluta af mannlegu lífi og segist ekki viss um að við myndum „fúnkera“ sérstaklega vel án hans. Hins vegar verði kvíðaröskun stundum svo mikil að fólk tapi algjörlega stjórn á honum. Þá sagði hann að þótt hann hefði hráan persónuleika þætti honum alltaf vænt um það þegar menn geta geislað af þeirri hlýju sem Sölvi gerir.

Í viðtalinu sagði Kári einnig að hann þyldi ekki aumingjaskap þrátt fyrir að honum þætti mikilvægt að hlúa að þeim sem minna mega sín. „Þegar ég segist ekki þola aumingja er það dálítið af hálfkæringi að nokkru leyti.“ Mikilvægt sé að gera greinarmun á raunverulegum vandamálum og væli og aumingjaskap.

Vel fór á með Kára og Sölva í viðtalinu. Sölvi …
Vel fór á með Kára og Sölva í viðtalinu. Sölvi rifjaði meðal annars upp þegar þeir hittust í World Class Laugum og Kári hefði sagst sjá á Sölva að hann væri kvíðinn. Það hefði einmitt verið raunin. Skjáskot/Youtube.

„Þegar ég er að tala um að samfélagið hlúi að þeim sem minna mega sín er ég fyrst og fremst að hugsa um að samfélagið sjái til þess að öll börn fái sömu tækifæri,“ sagði Kári. „Það er gjörsamlega út í hött að halda því fram að það nægi að öll börn fari í sömu skóla, því sum börn fara heim til sín í faðm fjölskyldu sem hlúir að þeim, hjálpar þeim við nám, les fyrir þau og otar að þeim hlutum sem eru góðir fyrir þau. Hins vegar eru börn sem fara heim til sín þar sem er ekkert heimili,“ segir Kári. Stórkostleg tækifæri væru innan grunnskólanna til að hlúa betur að börnum sem koma úr erfiðu umhverfi.

Sér eftir að hafa ekki varið meiri tíma með börnunum

Í viðtalinu var Kári spurður að því hvað væri mikilvægast í lífinu. Svaraði Kári því til að helsta eftirsjá hans væri að hafa ekki varið meiri tíma með börnunum sínum þegar þau ólust upp. „Þegar börnin mín voru ung var ég allt of metnaðarfullur, eyddi allt of litlum tíma í að hlúa að börnunum mínum, eyddi allt of miklum tíma í að vinna og skrifa vísindagreinar eins og það skipti einhverju máli að skrifa enn eina vísindagreinina,“ segir Kári. Með því hafi hann svindlað á sjálfum sér og börnunum.

„Það er ekkert merkilegra en að fylgjast með börnunum sínum og hlúa að þeim og hjálpa þeim að verða að þeim manneskjum sem þau eiga skilið,“ segir Kári og rifjar upp þegar undravert augnablik þegar hann fylgdist með afabarninu uppgötva stafrófið í febrúar. Hann segist hafa fengið gæsahúð á því augnabliki og það sé hræðilegt að svipta sig augnablikum sem þessum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert