Tveir af þremur mönnum, sem lögreglan lýsti eftir í gær, hafa verið handteknir. Mennirnir fundust á hóteli á höfuðborgarsvæðinu. Þetta staðfestir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. Tekin voru sýni úr mönnunum til að fá úr því skorið hvort þeir eru með kórónuveiruna, en beðið er niðurstöðu sýnatökunnar.
Mennirnir, sem eru frá Rúmeníu, komu til landsins í síðustu viku í sex manna hópi. Þrír þeirra voru handteknir eftir að hafa verið staðnir að búðarhnupli en tveir hinna handteknu reyndust með COVID-19 og hefðu með réttu átt að vera í sóttkví.
Lögregla lýsti eftir hinum þremur mönnunum í gærkvöldi en nú eru, sem fyrr segir, tveir þeirra fundnir. Þess sjötta er enn leitað og mun lögregla gefa út betri myndir af manninum síðar í dag.
Spurður hvort þetta sýndi að einhver veikleiki væri í kerfinu sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni að það væri veikleiki í kerfinu ef menn fara ekki eftir reglum og hafa eitthvað óheiðarlegt í hyggju.
Hann benti á að ef þeir hefðu farið í skimun við komuna til landsins hefðu upplýsingar um smit mannanna legið fyrir miklu fyrr. Það sýni þörfina á að skima við landamæri landsins.
Þá sagði Þórólfur að málið hafi sýnt og sannað að ákvörðunin að hætta við að taka heilbrigðisvottorð góð og gild hefði verið rétt. Því erfitt væri að sannreyna vottorð og ef menn hefðu eitthvað óheiðarlegt í hyggju myndu þeir leggja fram hugsanlega fölsuð vottorð.
Rakningarteymi er að störfum til að kanna hvort einhverjir sem hafa komist í tæri við mennina geti hafa smitast. Þórólfur taldi þó ólíkegt að mennirnir hefðu blandast Íslendingum að ráði.