800-900 komin til landsins að utan

Bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn hafa farið í gegnum Keflavíkurflugvöll …
Bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn hafa farið í gegnum Keflavíkurflugvöll í dag og telur Jórlaug að mikið sé um Íslendinga sem séu nú komnir heim í frí. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Allar flugvélar sem lenda áttu á Keflavíkurflugvelli í dag eru nú komnar til landsins og 800-900 manns með þeim, ekki 600 eins og áður var gert ráð fyrir, að sögn Jórlaugar Heim­is­dótt­ur, verk­efna­stjóra skimun­ar á Kefla­vík­ur­flug­velli, sem segir að reglulega mikið hafi verið bókað í vélar Icelandair sem komu til landsins síðdegis. 

Sýnatakan hefur gengið betur en vonir stóðu til, að sögn Jórlaugar. 

„Flæðið í gegnum alla sýnatökuna er ofsalega gott og gengur vel og það eru ótal aðilar sem eru með okkur í sýnatökunni í dag. Það er ekki hægt að segja annað en þessi dagur sé búinn að ganga vonum framar vegna þess að Icelandair-vélarnar eftir hádegi voru bara mjög bókaðar.“

Mjög mikið bókað í vélar Icelandair

Tíu sýnatökubásar eru á flugvellinum og í hverjum þeirra eru tveir starfsmenn, einn faglærður og einn ófaglærður. Jórlaug segir að það hafi ekki myndast mikil bið í sýnatökubásana þrátt fyrir fólksfjölda. 

„Icelandair flaug þétt seinni partinn það komu fimm vélar sem voru mjög mikið bókaðar en það er enginn sem stendur í röð lengi þar sem sýnatakan gengur vel.“

Jórlaug Heimisdóttir er ánægð með það hversu vel hefur gengið …
Jórlaug Heimisdóttir er ánægð með það hversu vel hefur gengið í dag. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Mikilvægt að forskrá sig

Það sem getur helst gert töf á ferð farþega er útfylling eyðublaðs sem öll sem koma til landsins þurfa að fylla út. Jórlaug segir skipta miklu máli að fólk forskrái sig áður en það kemur til landsins. 

„Það breytir rosalega miklu ef fólk er búið að forskrá sig vegna þess að fólk sem er ekki forskráð til landsins þarf að skrá sig á flugvellinum áður en það kemur í sýnatökuna og það getur tafið aðeins ferð þeirra í gegnum flugvöllinn. Svo er líka mikilvægt að ítreka að það þarf að forskrá börn þó svo að þau fari ekki í sýnatöku,“ segir Jórlaug en börn sem eru fædd 2005 og síðar þurfa ekki að fara í sýnatöku.

Spurð hvort starfsmenn í sýnatökunni fylgist með því að fólk hlaði niður smitrakningarappi segir Jórlaug ekki hægt að skikka fólk til að hlaða því niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert