Ellefu konur sem skipa útivistarhópinn Snjódrífurnar luku síðdegis í gær 150 kílómetra skíðagöngu þvert yfir Vatnajökul.
„Þetta hefur gengið eins og í ævintýri,“ segir Brynhildur Ólafsdóttir, ein Snjódrífanna. Þær ætluðu í nótt sem leið að gista í fjallaskála við Geldingafell, sem er við NA-horn Vatnajökuls og suður af Eyjabökkum.
Snjódrífurnar standa að verkefninu Lífskrafti og safna áheitum til stuðnings Krafti, sem er félag ungs fólks með krabbamein, og Lífi, en það er styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans.