„Algjört frumhlaup“ að bjóða Þorvaldi starfið

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármálaráðuneytið vildi að sá sem yrði valinn ritstjóri norræna fræðiritsins Nordic Economic Policy Review hefði nýlega reynslu af stefnumótun í málaflokknum, hefði reynslu af fræðaskrifum og væri kona af yngri kynslóðinni.

Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Tilefni fundarins eru meint afskipti fjármálaráðherra og starfsmanna fjármálaráðuneytisins af ráðningu Þorvaldar Gylfasonar í starf ritstjóra Nordic Economic Policy Review.

Starfsmaður lofaði í umboðsleysi

Bjarni sagðist viðurkenna að Þorvaldur hefði ekki komið upp í huga hans í tengslum við áðurnefndar áherslur ráðuneytisins. Það hafi komið honum á óvart þegar nafn Þorvaldar hafi komið inn í umræðuna erlendis frá þar sem að tillaga um ráðningu hans hafi ekki komið frá ráðuneytinu auk þess sem Þorvaldur hefði ekki gefið sig fram og óskað eftir starfinu.

Bjarni sagði að það hefði verið „algjört frumhlaup“ starfsmanns að nefna mögulega ráðningu Þorvaldar við hann og að starfsmaðurinn hafi með því lofað hlutum í umboðsleysi sem hann gat ekki staðið við. Starfmaðurinn hafi svo lent í vondri stöðu þegar fjármálaráðuneytið brást við tillögunni um Þorvald.

„Ég held að hann sé ekki heppilegur samstarfsaðili ráðuneytisins fyrir þetta verkefni og ég vek athygli á því að hér hafa starfað margar ríkisstjórnir undanfarin ár og mér er ekki kunnugt um að nein ríkisstjórn hafi leitað til Þorvaldar Gylfasonar um aðkomu að stefnumótun, og það hefur nú nokkurt vægi,“ sagði Bjarni.

Lítur út eins og kunningjaskapur hafi ráðið för

Fundurinn hófst á því að Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar sem óskaði eftir því að Bjarni kæmi á fundinn, fékk að halda stutta kynningu. Bjarni fór svo með stutta framsögu og í framhaldi af því gafst Guðmundi Andra tækifæri til að spyrja Bjarna spurninga.

Fundurinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er opinn.
Fundurinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er opinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur rakti að Þorvaldur hefði fengið tölvupóst frá fyrrverandi ritstjóra tímaritsins og að honum hefði verið boðin staða ritstjóra og Þorvaldur þáði það. Í byrjun nóvember hafi verið stungið upp á Þorvaldi við fjármálaráðuneytið en tillögunni hafnað. Óskað hafi verið eftir rökstuðningi og í honum hafi m.a. verið vísað til Wikipedia-síðu um Þorvald þar mátti finna úreltar upplýsingar. Sá rökstuðningur hafi leitt til þess að Þorvaldur hefði á endanum ekki verið ráðinn.

Bjarni brást við þessu í framsöguræðu sinni og sagði sjónarhorn Guðmundar á málið ansi þröngt. Málið væri þannig vaxið að fjármálaráðuneyti Norðurlandanna undir hatti Norrænu ráðherranefndarinnar eiga með sér samstarf um útgáfu tímaritsins. Fyrri hluta síðasta árs hafi staðið til að velja ritstjóra og nöfn hafi verið lögð í púkkið. Ekki hafi verið um hefðbundin umsóknarferli að ræða heldur óformlegt ferli þar sem íslenska ráðuneytið hefði lagt áherslu á að næsti ritstjóri yrði kona af yngri kynslóðinni en með reynslu af stefnumótun.

Sagði Bjarni að eins og málið liti við utan frá þá hefði kunningjaskapur Þorvaldar og fyrrverandi ritstjórans ráðið för þegar Þorvaldi var boðin staðan. Ef svo væri þá væri það langt frá því sem tímaritið snýst um sem er samstarf ráðuneytanna á vettvangi stýrinefndar.

Ekkert fullyrt um formennsku Þorvaldar

„Ég vil að lokum láta þess getið að hér hefur ítrekað verið nefnt í opinberri umræðu og kemur aftur fram hér að menn hafi gefið rangar upplýsingar um að Þorvaldur væri formaður í stjórnmálaflokki – það var ekkert fullyrt um það í þessum tölvupósti,“ sagði Bjarni.

Hann fór yfir hvernig tölvupósturinn var orðaður í íslenskri þýðingu og að þar hefði komið fram að eftir því sem starfsmaður ráðuneytisins vissi best þá hafi Þorvaldur enn þá verið formaður stjórnmálaflokks. Það hafi svo verið leiðrétt skömmu síðar. Hann bætti því við að það væri ekki neikvætt að vera formaður stjórnmálaflokks – hann væri formaður og skammaðist sín ekkert fyrir það.

Ekki að senda nein skilaboð til akademíunnar

Guðmundur Andri svaraði þessu og nefndi að það væri frekar litið á starf ritstjóra sem kvöð og Þorvaldur hafi frekar ætlað að bjarga málunum fyrst að það vantaði ritstjóra.  Hann spurði næst um vald og hvort þyrfti ekki að beita því með málefnalegum ástæðum.

Spurði hann hvort pólitískar skoðanir Þorvaldar væru málefnalegar og lögmætar ástæður í þessu máli. Hann spurði Bjarna einnig hvort með þessu væri verið að senda skilaboð til fræðimannasamfélagsins.

Bjarni sagði það vera mistök að líkja málinu við önnur mál þar sem auglýst er í stöður og hæfnismat á umsækjendum er framkvæmt. Menn haldi því fram að í þessu máli hafi hæfum manni verið hafnað á grundvelli stjórnmálaskoðana. „Ekkert slíkt liggur fyrir í þessu máli, ekki neitt,“ sagði Bjarni.

Hvað varðar skilaboð til fræðimanna og um akademískt frelsi skoraði hann á menn að fletta upp einu orði sem Bjarni hefur látið falla um Þorvald áður en þetta mál kom upp og bera þau saman við þau orð sem hann sem fræðimaður hafi látið falla í garð stjórnvalda. „Ég er ekki að senda nein skilaboð inn í akademíuna en ég hef oft furðað mig á þeim skilaboðum sem akademían sendir til stjórnvalda,“ bætti hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert