Fréttamenn CNN meðal fyrstu farþega til landsins

Breskir fréttamenn frá bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN voru meðal fyrstu farþega sem komu hingað til lands í morgun, eftir að slakað var á ferðatakmörkunum til landsins.

Fréttamaður og myndatökumaður stöðvarinnar komu með vél frá Lundúnum í morgun. Þeir hyggjast verja um viku í landinu og segja frá viðbrögðum íslenskra heilbrigðisyfirvalda og stjórnvalda við faraldrinum, opnun landsins og hlutverki Íslenskrar erfðagreiningar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem erlendir fréttamenn koma hingað til lands til að fjalla um viðbögð landans við kórónuveirufaraldrinum, en í síðasta mánuði kom El­iza­beth Kol­bert, blaðamaður banda­ríska blaðsins New Yor­ker til lands­ins til að skrifa fyr­ir blaðið. 

Blaðamennirnir nú fóru þó í sýnatöku eins og aðrir en nýjar reglur tóku gildi í dag um komur ferðamanna til landsins.

Fréttin hefur verið uppfærð en samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu þurfti blaðamaður New Yorker ekki að fá undanþágu frá sóttkví þrátt fyrir að blaðamaðurinn hafi staðhæft það í sinni grein á sínum tíma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert