„Getum við ekki unnið saman hérna inni?“

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fundaði í dag í síðasta sinn undir …
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fundaði í dag í síðasta sinn undir formennsku Þórhildar Sunnu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn stjórnarandstöðunnar fóru hörðum orðum um meirihlutann í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í umræðum á Alþingi í dag. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, steig fyrst í pontu og sagði af sér formennsku í nefndinni.

„Ég er döpur yfir því að þessi unga efnilega kona sem hefur stýrt nefndinni af myndarskap skuli sjá sig knúna til að stíga til hliðar,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Með „eineltis- og ofbeldistöktum“ hefði minnihlutinn verið kúgaður innan nefndarinnar og afsögn Þórhildar Sunnu væri áfellisdómur yfir störfum meirihlutans. Guðmundur Ingi Kristinsson, flokksbróðir hennar, sagði allt of mikinn tíma þingmanna fara í að rífast og skammast í nefndum. „Getum við ekki unnið saman hérna inni?“

Þórhildur Sunna segist láta af störfum til að mótmæla ákveðnu athæfi. Linnulaust sé persóna hennar gerð að aðalatriði í störfum nefndarinnar og hún geti ekki látið bjóða sér að stjórnarmeirihlutinn nýti þetta skálkaskól. „Störf nefndarinnar eru miklu mikilvægari en sú sem hér stendur,“ sagði Þórhildur og vísaði til sjálfrar sín.

Eftirsjá að Þórhildi

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að skort hefði almenna háttvísi og lágmarkskurteisi innan nefndarinnar og meirihlutinn hefði gert formanninum, Þórhildi Sunnu, ákaflega erfitt fyrir. „Ég sýni því fullan skilning sem hún hefur ákveðið að gera,“ sagði Guðmundur Andri, og bætti við að eftirsjá væri að Þórhildi Sunnu.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, hefur átt sæti í nefndinni frá í nóvember. Hann tók undir orð Þórhildar um að meirihlutinn hefði nýtt hvert tækifæri til að grafa undan störfum hennar og annarra þingmanna minnihlutans sem treyst er fyrir formennsku í nefndum, „oft aðeins að nafninu til“.

Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, var eini stjórnarliðinn sem kvaddi sér hljóðs. Hafnaði hún ásökunum minnihlutans og sagði umrætt vantraust vera á báða bóga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert