„Nota mig og mína formennsku sem skálkaskjól“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/​Hari

„Það var orðið morgunljóst að það stæði ekki til að leyfa mér að sinna þessari formennsku með faglegum og fullnægjandi hætti,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sem sagði af sér formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í dag. 

„Til­raun­ir okk­ar í minni­hluta stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar til að sinna eft­ir­lits­hlut­verki nefnd­ar­inn­ar hafa ein­ung­is orðið meiri­hlut­an­um til­efni til valdníðslu og linnu­lausra árása. Skýr­asta dæmið um þetta er hvernig meiri­hlut­inn stend­ur í vegi fyr­ir frum­kvæðis­at­hug­un á hæfi sjáv­ar­út­vegs­ráðherra, en for­sæt­is­ráðherra kall­ar það góða niðurstöðu,“ sagði Þór­hild­ur á Alþingi í dag þegar hún tilkynnti um afsögn sína. 

Í samtali við mbl.is segist Þórhildur hafa fengið nóg af framgöngu meirihlutans í nefndinni. 

„Ég ákvað að í stað þess að vera leiksoppur þeirra sem engu eftirliti vilja lúta, að ganga út og neita þeim um þetta skálkaskjól sem þau eru sífellt að leita í. Að ráðast á mig og mína persónu til þess að réttlæta upplýsingafælni sína og andstöðu við aðhaldi frá þessari nefnd.“ 

Hún segist hafa ígrundað þessa ákvörðun síðan meirihluti nefndarinnar ákvað að ekki væri tilefni til frekari athugunar á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra gagnvart útgerðarfélaginu Samherja. 

„Ég hef verið að hugsa um þetta síðan meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ákvað að fara svona með frumkvæðisathugun á hæfi Kristján Þórs Júlíussonar. Sér í lagi eftir að forsætisráðherra blessaði þennan verknað og kallaði hann „góða niðurstöðu“. Þar með fannst mér augljóst að þessi aðför meirihlutans væri í boði ríkisstjórnarinnar líka. Þar með sá ég mína sæng uppreidda.“

Engin manneskja stærri en embættið

Þing­menn stjórn­ar­and­stöðunn­ar fóru hörðum orðum um meiri­hlut­ann í stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd í umræðum á Alþingi í dag eftir að Þórhildur tilkynnti um ákvörðun sína. Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, velti því fyrir sér í kjölfar ákvörðunar Þórhildar hvort öðruvísi sé komið fram við konur í valdastöðum en karla. Þórhildur segist sömuleiðis hafa velt þessu fyrir sér. 

„Ég hef vissulega velt því fyrir mér hvort nefndarmenn myndu dirfast að leyfa sér að koma svona fram við karlmann í svona stöðu. En það er ekki aðalatriðið í minni ákvörðun heldur að það sé verið að nota mig og mína formennsku sem eitthvert skálkaskjól til að forðast eftirlit. Engin manneskja er stærri en embættið sem hún gegnir.

Mér finnst mikilvægt að nefndin geti starfað og ég vil heldur ekki taka þátt í einhverju leikriti þar sem formennska mín er notuð til þess að segja að það sé allt rangt við eftirlit minnihlutans, að það skrifist allt á mig og mína formennsku. Þau þurfa að finna sér einhverja aðra afsökun.“

Geti kosið að læra af þessu

Þórhildur segir meirihlutann hafa val um að draga lærdóm af málinu. 

„Þau hafa auðvitað val um tvennt. Þau geta kosið að læra af þessu og borið meiri virðingu fyrir eftirlitshlutverki minnihlutans, eða þau geta opinberað enn frekar hvað þeim er illa við þetta eftirlit.“

Hún segir málið ekki eiga að snúast um sig. 

„Aðalatriðið er hversu alvarleg þessi aðför meirihlutans að rétti minnihlutans til að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu er. Að forsætisráðherra kalli það góða niðurstöðu hvernig fór með mál sjávarútvegsráðherra er mjög alvarlegt. Það sendir vissulega skýr skilaboð um að þessi málsmeðferð sé í umboði og með samþykki forsætisráðherra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert