Lögfræðingar sóttvarnalæknis skoða nú hvaða heimildir yfirvöld hafi til að vísa Rúmenum, sem virtu skyldu sína til að fara í sóttkví að vettugi og eru ekki smitaðir af kórónuveirunni, úr landi, að sögn Víðis Reynissonar, yfirlögregluþjóns hjá almannavörnum.
Lögreglan leitar enn þriggja Rúmena sem talið er að hafi brotið sóttvarnalög með því að fara ekki í sóttkví við komuna til landsins og því er alls um fjórtán manns að ræða sem á að vista í sóttvarnahúsinu við Rauðarárstíg og eru grunuð um að hafa brotið sóttkví.
Tveir af þessum fjórtán hafa greinst með kórónuveiruna en þau ellefu sem eru fundin dvelja nú í sóttvarnahúsinu. Ekkert þeirra hefur neitað að sæta sóttkví eða einangrun og því hefur ekki verið þörf á gæsluvarðhaldi yfir fólkinu. Samt sem áður er lögreglueftirlit í sóttvarnahúsinu vegna fólksins.
„Fólkið er búið að brjóta sóttkví þannig að við viljum hafa gæslu á því en fólkið er ekki beitt þvingun eins og staðan er núna,“ segir Víðir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu í dag að reynt væri að senda þau úr hópnum sem ósmituð eru úr landi. Spurður hver staðan sé á því segir Víðir:
„Það er í höndum lögfræðinga sóttvarnalæknis að fara yfir þau mál og hvaða heimildir eru fyrir frekari inngripum.“
Þessir þrír sem nú er leitað tengjast hinum ellefu en eru ekki grunuð um að tengjast skipulagðri brotastarfsemi eins og nokkur þeirra ellefu sem nú dvelja í sóttvarnahúsinu.
Fleiri mál eru ekki í skoðun í tengslum við rúmenska hópinn, að sögn Víðis, en lögreglan skoðar nú hvaða viðurlögum verði beitt vegna brota fólksins. Nýjar reglur tóku gildi á föstudag en hópurinn kom til landsins fyrir þann dag, og því ólíklegt að hægt sé að beita þeim.