Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning rétt fyrir miðnætti í gær um þrjá menn sem börðu einn og fóru svo með manninn af vettvangi í bifreið. Lögregla náði að stöðva bifreiðina skömmu síðar og voru árásarmennirnir handteknir og vistaðir í fangageymslu í þágu rannsóknar.
Fórnarlambið var flutt með sjúkrabifreið til aðhlynningar á bráðamóttökuna í Fossvogi. Ekki er vitað um áverka mannsins að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Fimm erlendir menn sem áttu að vera í sóttkví brutu gegn henni með því að mæta á lögreglustöð í tveimur leigubifreiðum. Tilgangurinn var að tilkynna um breyttan dvalarstað á meðan þeir dvelja í sóttkví.
Spurðir af hverju þeir hafi ekki tilkynnt um breytta tilhögun með símtali sögðust þeir ekki hafa nennt því og töldu að það væri einfaldara að koma á staðinn. Þeir voru færðir til vistunar á sóttvarnahótel. Þá var haft uppi á leigubílstjórunum og þeim tilkynnt að þeir þyrftu að fara í sóttkví.
Tilkynnt var um þjófnað í verslunarmiðstöð í hverfi 103 um miðjan dag í gær. Tveir aðilar tóku vörur og fatnað ófrjálsri hendi. Vörur voru óskemmdar þegar þjófarnir voru handsamaðir og þeim skilað.
Þjófur fór inn um glugga í hverfi 108 og stal verðmætum rétt eftir klukkan sjö í gærkvöldi og þá var tilkynnt um innbrot og þjófnað úr geymslu íbúðar í Mosfellsbæ. Veiðibúnaði, að verðmæti um 500 þúsund krónum, var stolið.
Þá var tilkynnt um lausagöngu hrossa um tvöleytið í nótt í Mosfellsbæ. Hrossin höfðu komist í garða hjá fólki og voru að bíta gras þegar lögregla kom á staðinn. Ráðstafanir voru gerðar til að fjarlægja þau.
Tilkynnt var um þrjú umferðaróhöpp í gær, tvö bílslys og eitt reiðhjólaslys.
Annað bílslysið átti sér stað á Bústaðavegi þar sem keyrt var aftan á kyrrstæðan bíl sem beið á rauðu ljósi við gatnamót. Tjónvaldur er grunaður um ölvun við akstur og var vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar. Hvorugur ökumaður slasaðist.
Bíll valt í í Heiðmörk og voru fjórir fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. Talið er að allir hafi sloppið með minni háttar meiðsl. Ekki er vitað hvað olli veltunni.
Þá var tilkynnt um reiðhjólaslys í Öskjuhlíð um sexleytið í gærkvöldi. Hjólreiðamaður var mjög kvalinn í baki eftir byltuna og var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku.
Stungið var á dekk nýlegrar bifreiðar í Hafnarfirði og lakk hennar var rispað. Tilkynnt var um eignarspjöll.