Inga Sæland, þingmaður og formaður Flokks fólksins, segist vilja opinbera rannsókn á máli 12 Rúmena sem grunaðir eru um að hafa brotið sóttvarnalög. Tveir úr hópnum, karl og kona, reyndust smituð af kórónuveirunni.
Inga spurði Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra hvað hafi farið úrskeiðis í máli Rúmenanna í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.
Um er að ræða 12 einstaklinga sem grunaðir eru um að hafa brotið sóttvarnalög með því að halda sig ekki í sóttkví í 14 daga eftir komuna til landsins. Tveir þeirra eru með virkt smit og er nú unnið að því að senda hina 10 úr landi.
„Mig langar að velta því fyrir mér hvernig það stóð á því að hópur kórónuveirusýktra rúmenskra glæpamanna slapp inn í landið þar sem hann lék lausum hala dögum saman. 16 íslenskir lögreglumenn liggja óvígir eftir næstu tvær vikurnar í sóttkví. Við vitum ekkert hvert þessir einstaklingar hafi farið og hverja þeir hafa hitt. Við vitum ekkert hvort þeir hafi hér smitað einstaklinga í marga daga. Hvaða upplýsingar gaf þetta fólk við komuna til landsins? Þurfti það ekki að gefa neinar upplýsingar? Hvers vegna virkaði ekki það sem maður skyldi ætla að væri eftirlit Schengen? Ég vil að opinber rannsókn fari fram á þessu máli og að það verði krufið til mergjar hvað hafi eiginlega gerst,“ sagði Inga.
Inga spurði Áslaugu hvort hún viti hvað hafi farið úrskeiðis og hvers vegna.
Áslaug sagði opnun landamæra og eftirlit með henni ekki jafn óskýrt og Inga virtist halda. Hópurinn hafi brotið reglur um sóttkví og nú sé unnið að smitrakningu.
„Ég sé ekki að það hafi farið neitt úrskeiðis sérstaklega í þessu máli. Það er auðvitað mjög alvarlegt að framlínustarfsmenn okkar séu í sóttkví en við því verður brugðist,“ sagði Áslaug.
„Afskaplega þykir mér nú dapurt ef hún sér að ekkert hafi farið úrskeiðis,“ sagði Inga þá um svar Áslaugar.
„Hér þótti mér í sambandi við þennan glæpahóp allt hafa farið úrskeiðis. Þeir komu til landsins þegar við vorum ekki búin að rýmka reglurnar. Þurftu þeir ekki að skila neinum gögnum? Löbbuðu þeir bara inn í samfélagið okkar eins og enginn væri morgundagurinn?“ spurði Inga.
„Já, þeir sem koma og ferðast hérna innan Schengen-svæðisins geta gert það,“ svaraði Áslaug. „Við höfum aldrei lokað okkar innri landamærum heldur höfum við sett það sem skilyrði að fólk fari í 14 daga sóttkví. Það var á þeim grunni sem þessir aðilar koma hér, innan svæðisins sem er opið, á þeim grunni að þeir ætla að fara í 14 daga sóttkví, gera það ekki og þess vegna er gripið til ráðstafana.“