Maður á fertugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um að hann hafi ráðist á konu á heimili hennar miðsvæðis í Reykjavík í gær, en málið er rannsakað sem tilraun til manndráps.
Héraðsdómur úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald til 13. júlí að kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, en manninum er gert að sæta varðhaldi annars vegar á grundvelli rannsóknarhagsmuna og hins vegar á grundvelli þess að lögregla telur hættu á áframhaldandi brotastarfsemi af hans hálfu.
Konan sem varð fyrir líkamsárásinni er ekki talin í lífshættu. Lögregla getur ekki veitt nánari upplýsingar um málið að svo stöddu, en rannsókn þess miðar vel, að því er segir í tilkynningu.