„Þetta er nýr og spennandi áfangastaður og hefur aðsókn verið góð eftir að við opnuðum aftur,“ segir Árni Freyr Magnússon, einn af þeim sem taka á móti gestum í manngerðu hellunum í landi Ægissíðu við Hellu. Boðið er upp á hellaskoðun með leiðsögn um helgar, báða dagana klukkan 14.
Þórhallur Ægir Þorgilsson á Ægissíðu, börn hans Baldur og Ólöf, Álfrún Perla dóttir Baldurs og Árni Freyr kærasti hennar vinna að verkefninu. Árni segir að tilgangurinn sé að safna fjármunum til þess að koma fleiri hellum í sýningarhæft ástand og varna því að þeir eyðileggist.
Hann bendir á að heimildir séu til um að átján hellar hafi verið í landi Ægissíðu á átjándu öld. Nú séu þeir tólf. Hinir séu hrundir eða lokaðir. Áhugavert væri að finna horfnu hellana.
Þau einbeita sér þó núna að því að bjarga þeim hellum sem nú eru þekktir og koma þeim í sýningarhæft ástand, að því er fram kemur í umfjöllun um hella þessa í Morgunblaðinu í dag.