Meintur „hverfisperri“ ákærður

Maðurinn hefur verið ákærður.
Maðurinn hefur verið ákærður. mbl.is/Ófeigur

Ákæra hefur verið gefin út á hendur karlmanni sem sakaður er um að hafa ítrekað stundað sjálfsfróun í stofuglugga sínum í Rimahverfi í Grafarvogi í augsýn barna. Þetta staðfestir saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara við mbl.is.

Maðurinn býr á jarðhæð fyrir framan lítinn róluvöll í Rimahverfi og með garð sem liggur að róluvellinum. Hann er sakaður um að standa ítrekað úti í glugga og fróa sér meðan hann horfir á börnin leika sér. Stundum hafi hann opnað svaladyrnar eða farið út í garð.

Á annað hundrað foreldrar barna í Grafarvogi hafa ritað undir bréf til dómsmálaráðherra, barnamálaráðherra og annarra yfirvalda þar sem óskað er eftir samráði og tafarlausum aðgerðum „til að vernda börn í Rimahverfi gegn kynferðislegri áreitni“.

Er með tvo dóma á bakinu

Maðurinn var dæmd­ur í Héraðsdómi Reykja­vík­ur og þurfti að sitja tvo mánuði í fang­elsi fyr­ir blygðun­ar­sem­is­brot af svipuðum toga. Með brot­inu rauf hann skil­orð sem hann hlaut í sam­bæri­legu máli sem fór fyr­ir Hæsta­rétt árið 2011. Í því máli sak­felldi Hæstirétt­ur mann­inn fyr­ir að særa blygðun­ar­semi tveggja barna.

Í dómi Hæsta­rétt­ar neitaði maður­inn sök en kannaðist hins veg­ar við að hafa staðið nærri glugga í íbúð sinni í frá­hnepptri skyrtu einni klæða og lýsti hann því sem svo að hann hefði klórað sér í kyn­fær­um eða gripið um þau í um­rætt sinn. Þar sem hátt­semi hans var til þess að særa blygðun­ar­semi þeirra barna sem urðu vitni að því var maður­inn sak­felld­ur fyr­ir at­hæfið. 

Ákærður fyrir brot á síðasta ári

Ákæran, sem mbl.is hefur undir höndum, tiltekur tvö meint brot mannsins sem hann er sakaður um að hafa framið í marsmánuði og maímánuði á síðasta ári.

Í fyrri ákærulið er hann sagður hafa staðið úti í glugga „nakinn að neðan og snert þar kynfæri sín meðan hann fylgdist með“ tveimur níu ára drengjum sem voru að leika sér utandyra skammt frá og sáu athæfi mannsins. Hann hafi sýnt af sér ósiðlegt athæfi sem var til þess fallið að særa blygðunarsemi drengjanna.

Annar ákæruliðurinn er nánast samhljóma en þá er hann sagður hafa snert sig meðan hann fylgdist með tveimur ellefu ára gömul drengjum. Foreldrar allra fjögurra drengja gera einkaréttarkröfur fyrir hönd þeirra.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert