Niðurstöður rannsóknar sem benda til þess að steralyfið Dexamethasone dragi úr dánarlíkum sjúklinga sem eru alvarlega veikir af kórónuveirunni verða skoðaðar vel og metið verður hvort að lyfið geti komið að gagni hér á landi.
Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómum á Landspítalanum og prófessor við Háskóla Íslands, segir lyfið vera algengt og aðgengilegt.
Rannsóknin bendir til þess að notkun lyfsins dragi úr dánarlíkum sjúklinga í öndunarvélum um þriðjung. Þá virðist lyfið draga úr dánarlíkum sjúklinga í súrefnisgjöf um fimmtung.
„Við þurfum að fara betur yfir þessar niðurstöður og skoða hvaða sjúklingahópar það voru sem fengu lyfið. En þetta er lyf sem við notum í meðferð mjög margra sjúkdóma. Þetta er öflugur barksteri sem er notaður við meðferð ýmissa bólgusjúkdóma og þar fram eftir götunum,“ segir Magnús í samtali við mbl.is.
„Þetta er lyf sem við þekkjum og við munum fara yfir þessar niðurstöður mjög gaumgæfilega og meta hvort að þetta sé eitthvað sem megi heimfæra upp á þau vandamál sem munu vafalítið koma fram hjá okkur. Þetta eru niðurstöður sem eru náttúrulega nýbirtar og menn hafa stundum farið fram úr sér í túlkunum á svona niðurstöðum.“
Þá segir Magnús lyfið ekki virka beinlínis á kórónuveiruna heldur bæli það ónæmiskerfi sjúklinga þegar það fer í yfirgír.