Óboðlegt að stjórnmálaskoðanir útiloki Þorvald

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor.
Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lars Calmfors, fyrrverandi ritstjóri tímaritsins Nordic Economic Policy Review og sá sem mælti með Þorvaldi Gylfasyni í starfið, segir óboðlegt að stjórnmálaskoðanir Þorvaldar hafi komið í veg fyrir að hann fengi að ritstýra tímaritinu. Það sé til þess fallið að rýra trúverðugleika ritsins.

Þetta kemur fram í sænska fjölmiðlinum Dagens Nyheter þar sem segir að stjórnarkreppa gæti verið í uppsiglingu hér á landi vegna málsins eftir að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var boðaður á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til að svara spurningum um málið.

Bjarni er sagður vera ásakaður um að hafa lagt stein í götu eins fremsta hagfræðings Íslands, Þorvaldar Gylfasonar, af pólitískum ástæðum. Þorvaldur er sagður umdeildur hér á landi – hann hafi séð efnahagshrunið 2008 fyrir og varað við því.

Ekki tímabært að leggja fram vantraust á Bjarna

Hann hafi einnig verið duglegur við að gagnrýna stjórnvöld og það hafi mögulega kostað hann ritstjórastarfið. Haft er eftir Calmfors að Þorvaldur sé reynslumikill, með mikla þekkingu og þekktur fræðimaður á sínu sviði.

Þá er haft eftir Þorvaldi að það hafi ekki verið fjármálaráðuneytið sem hafi komið í veg fyrir að hann fengi að ritstýra tímaritinu heldur sjálfur fjármálaráðherra. „Hann hefur viðurkennt það. Þeir treysta ekki hagfræðingi sem hefur gagnrýnt stefnu þeirra í efnahagsmálum,“ segir Þorvaldur.

Í umfjölluninni er einnig rakið að Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hafi haft frumkvæði að því að kalla Bjarna á fund nefndarinnar til að svara spurningum nefndarmanna. Spurður hvort hann ætli að leggja fram vantraustsyfirlýsingu á Bjarna segir Guðmundur Andri að það sé ekki tímabært.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert