Segir einelti hafa viðgengist lengi

SÁÁ, Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavanda, reka sjúrkahúsið Vog. …
SÁÁ, Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavanda, reka sjúrkahúsið Vog. Aðalfundur samtakanna verður haldinn 30. júní. Eggert Jóhannesson

Stjórnarmaður í framkvæmdastjórn SÁÁ sagði sig úr framkvæmdastjórninni í dag vegna samskipta sitjandi framkvæmdastjórnar við starfsfólk á Vogi. Aðalfundur samtakanna fer fram 30. júní næstkomandi.

Níu manns sitja í framkvæmdastjórn samtakanna. Sigurður Friðriksson sagði sig úr stjórninni í dag, en hann fylgir með því fordæmi fjögurra annarra stjórnarmanna. 

Undanfarin misseri hefur Sigurður gert athugasemdir við framkomu formanns samtakanna og annarra í framkvæmdastjórn, gagnvart Valgerði Rúnarsdóttur, forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga á Vogi. Sigurður hefur setið í stjórn SÁÁ í 10 ár. 

Sigurður segir að um langt skeið hafi verið reynt að bola Valgerði burtu. Hún hafi strax notið mikilla vinsælda meðal samstarfsmanna og andrúmsloftið orðið betra eftir að hún tók við störfum. 

„Ofbeldis- og ógnarstjórnun, sem felst í því að reka fólk í tíma og ótíma að tilefnislausu, því er lokið,“ segir Sigurður. 

„Þau hafa í heilt ár reynt að flæma hana í burtu, þau skiptast á að reyna að brjóta hana niður. Svo hittir maður Valgerði og hún er eins og ljós í myrkrinu. Bullið sem hefur viðgengist á þessum vettvangi hætti þegar hún tók við. Þeir hafa lagst á hana á hverjum fundi, og rakkað hana niður og gert lítið úr henni. Stundum hefur hún gengið út af fundunum,“ segir Sigurður.

Valgerður sagði starfi sínu lausu fyrr á þessu ári í kjölfar uppsagna á Vogi og deilna við formann samtakanna, Arnþór Jónsson. Valgerður hefur síðan dregið uppsögn sína til baka, en um leið dró framkvæmdastjórn samtakanna uppsagnir átta starfsmanna á Vogi til baka.

Rekstrartap vegna Víkur á Kjalarnesi 

Fram kemur í uppsagnarbréfi Sigurðar að inngrip formanns og framkvæmdastjórnar samtakanna í starfsemi Vogs hafi verið ófagleg, óþörf og ósanngjörn.

Á sama tíma og gerðar hafi verið kröfur um sparnað í rekstri hafi framkvæmdastjórn hlutast til um og stofnað til launa- og starfslokasamninga við einstaka aðila af ástæðum sem ekki fái staðist.  Það sem hafi fyrst og fremst þrengt að rekstri sjúkrahúsa SÁÁ hafi verið framúrakstur og þekkingarleysi formanns samtakanna vegna framkvæmda við meðferðarstöðina Vík. 

Sigurður Friðriksson, fyrrum framkvæmdastjórnarmaður SÁÁ.
Sigurður Friðriksson, fyrrum framkvæmdastjórnarmaður SÁÁ.

Í lok bréfsins hrósar Sigurður Valgerði og segir hana hafa staðið sig afburðavel og unnið gott starf, „þrátt fyrir þrengingar og ólíðandi afskipti af hálfu formanns og hluta framkvæmdastjórnar. Ég fullyrði að auknar fjárveitingar til SÁÁ á síðustu misserum hafa komið til vegna trausts og tiltrúar yfirvalda á starf hennar og hennar heilbrigðisstarfsfólks,“ segir Sigurður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert