Skýrslan sýni brýna þörf á alþjóðlegri rannsókn

For­seti Fil­ipps­eyja, Rodrigo Duterte.
For­seti Fil­ipps­eyja, Rodrigo Duterte. AFP

Skýrsla Sameinuðu þjóðanna um ástand mannaréttinda í Filippseyjum sýnir „svart á hvítu hversu nauðsynlegt er að rannsaka þessi grimmilegu mannréttindabrot enn frekar og draga þá til ábyrgðar sem þau fremja,“ samkvæmt Íslandsdeild Amnesty International. 

Í skýrslunni kemur fram að meðal alvarlegra brota stjórnvalda á Filippseyjum eru morð, gerræðislegar handtökur og alvarleg brot á borgaralegum réttindum. Skýrslan var unnin að beiðni mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, en í júlí á síðasta ári samþykkti ráðið að frumkvæði Íslands að óska eftir skýrslu um Filippseyjar frá mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. 

Í skýrslunni er einnig fjallað um refsileysi vegna aftaka án dóms og laga, falsanir á sönnunargögnum í áhlaupum lögreglu sem gerðar eru án heimildar, aðför að tjáningar- og fjölmiðlafrelsi og mannréttindabrot annarra aðila en yfirvalda. 

„Við vonumst til þess að fordæmi Íslands verði öðrum ríkjum hvatning og sýni að fámennari ríki geti látið til sín taka á alþjóðavettvangi og haft jákvæð áhrif á mannréttindi í heiminum. Hið svokallaða „stríð gegn fíkniefnum” birtist meðal annars í víðtækum og kerfisbundnum aftökum án dóms og laga á almennum borgurum sem oft tilheyra jaðarsettum hópum. Brotin viðgangast án þess að nokkur sé látinn sæta ábyrgð. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna kemur fram að yngsta fórnarlambið var fimm mánaða gamalt barn sem sýnir skýrt hversu andstyggileg og vægðarlaus þessi brot eru,“ segir Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International í tilkynningu frá samtökunum. 

Ályktun Mannréttindaráðsins mikilvægt fyrsta skref 

„Skýrslan sýnir svart á hvítu hversu nauðsynlegt er að rannsaka þessi grimmilegu mannréttindabrot enn frekar og draga þá til ábyrgðar sem þau fremja. Ísland tók fyrsta skrefið og fékk þessa ályktun í gegn í Mannréttindaráðinu og nú verður að tryggja að alþjóðasamfélagið snúi bökum saman og tryggi að þessum drápum og öðrum mannréttindabrotum, sem framin eru undir því yfirskini að berjast gegn fíkniefnum, linni,“ segir Anna. 

Ályktun Mannréttindaráðsins hafi verið mikilvægt fyrsta skref til að takast á við ástandið á Filippseyjum. Það sé áríðandi að Mannréttindaráðið taki málið föstum tökum í ljósi niðurstöðu skýrslunnar og kallar Amnesty eftir óháðri rannsókn á mannréttindabrotum í Filippseyjum og að henni fylgi tilskipun um að stuðla að ábyrgðarskyldu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka