Sýni tekin úr rúmlega helmingi farþega

Norræna kom til Seyðisfjarðar klukkan níu í morgun.
Norræna kom til Seyðisfjarðar klukkan níu í morgun. mbl.is/Pétur Kristjánsson

Skimað var fyrir kórónuveirunni hjá um 80 farþegum sem komu til Seyðisfjarðar með Norrænu. Ekki þurfti að taka sýni frá 70 farþegum, en þeir voru ýmist Færeyingar eða Íslendingar að koma frá Færeyjum. Hóparnir héldu að mestu til hvor á sínu dekkinu á siglingunni og var þeim haldið í sundur eins og hægt var.

„Þetta gekk nú bara ágætlega,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, um skimunina. „Þetta tók tvo og hálfan tíma allt í allt, en það skýrist af mestu af því að það voru mjög margir sem ekki höfðu skráð sig rafrænt inn í grunninn. Það er eitthvað sem þarf að skoða og ráða bót á.“

Sýnin úr farþegum Norrænu verða send til Reykjavíkur síðdegis í dag og vonir standa til þess að niðurstaða náist í kvöld. Farþegar eru ekki í sóttkví en eru beðnir að hafa hægt um sig þangað til niðurstöður berast. „Og þess vegna ríður á að það sé ekki langur tími sem líður,“ segir Kristján.

Komst fljótt frá borði

Þorgrímur Guðmundsson var meðal farþega í Norrænu, en skipið sem hann er vélstjóri á er í slipp í Færeyjum. Hann þurfti ekki að fara í skimun við komuna til landsins og segist hafa komist fljótt frá borði.

„Það var reynt eftir bestu getu,“ segir Þorgrímur aðspurður hvort hópunum hafi verið haldið aðskildum. „Þetta var á sitthvoru dekkinu, þeir sem þurftu að láta taka sýni og þeir sem bara þurftu að skrá sig.“

Þorgrímur Guðmundsson er vélstjóri á Hoffelli SU-80. Hann tók mótórhjólið …
Þorgrímur Guðmundsson er vélstjóri á Hoffelli SU-80. Hann tók mótórhjólið með sér þegar skipið sigldi í slipp til Færeyja og er nú kominn heim í frí. Ljósmynd/Pét­ur Kristjáns­son
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert