Framboð viðskipta- og hagfræðingsins Guðmundar Franklíns Jónssonar til embættis forseta Íslands kom sitjandi forseta, Guðna Th. Jóhannessyni, ekki á óvart.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Guðni að út frá þróun síðustu ára hafi mátt gera ráð fyrir að annar aðili myndi bera víurnar í embættið. Sjálfur kveðst hann lengst ætla að gegna embætti forseta Íslands næstu átta árin. Að þeim tíma loknum muni hann hverfa á ný inn í heim sagnfræðinnar.
Í viðtali í Morgunblaðinu í dag er sömuleiðis rætt við Guðmund Franklín, sem er gagnrýninn á störf sitjandi forseta. Telur hann Guðna hafa brugðist í veigamiklum málum á borð við orkupakka þrjú. Þá undrast hann afstöðu Fréttablaðsins, Sýnar og Hringbrautar til framboðs hans. Segir hann umrædda fjölmiðla ásamt „ESB-klíkunni“ hafa unnið markvisst gegn sér. Þrátt fyrir það kveðst Guðmundur bjartsýnn á sigur í kosningunum 27. júní.