Ljót för eftir vélsleða á Fjallabaki

Skemmdir eftir vélsleðaakstur eru á mosagrónu svæði sem getur tekið …
Skemmdir eftir vélsleðaakstur eru á mosagrónu svæði sem getur tekið tugi ára að gróa ef ekki er gripið inn í og lagfært. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Ljót för eftir vélsleða eru á mosagrónu svæði við mörk Friðlandsins að Fjallabaki. Landverðir sem voru í eftirlitsferð nýlega tóku eftir ummerkjunum. 

Ekki er algengt að sjá skemmdir á landi eða gróðri eftir vélsleða, en eins og með önnur vélknúin ökutæki flokkast það sem ólöglegur utanvegaakstur, að því er segir í tilkynningu frá Umhverfisstofnun

Skemmdirnar eru á mosagrónu svæði sem getur tekið tugi ára að gróa ef ekki er gripið inn í og lagfært. Allar líkur eru á að aksturinn hafi átt sér stað þegar snjór þakti svæðið en Umhverfisstofnun bendir á að þegar ekið er á snævi þakinni jörð, þá þarf að vera tryggt að snjóþekjan sé traust.

Í lögum um náttúruvernd kemur fram að bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og snævi þakinni jörð utan vega utan þéttbýlis svo fremi jörð sé frosin eða snjóþekjan traust og augljóst að ekki sé hætta á náttúruspjöllum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka