„Þetta er viðurkenning til okkar allra“

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Þetta er gríðarlega mikill heiður og ég er stoltur af því að taka við þessu fyrir hönd þess stóra hóps sem hefur unnið að þessu verkefni í svo langan tíma,“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, í samtali við mbl.is. Hann var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu í dag ásamt hinum tveimur úr þríeykinu svokallaða, Ölmu Möller og Þórólfi Guðnasyni. 

„Almannavarnir fá þessa viðurkenningu og ég tek líka við henni sem lögreglumaður og er mjög stoltur af því að taka við henni fyrir hönd okkar lögreglumanna. Í mínu tilfelli er þetta alls ekki eitthvert eins manns verk. Slagorðið okkar er að við erum öll almannavarnir og það á svo sannarlega við í þessu því öll sem tóku þátt í þessu verkefni eiga þessa viðurkenningu skilið.“

Þórólfur, Alma og Víðir taka sig vel út með fálkaorðurnar.
Þórólfur, Alma og Víðir taka sig vel út með fálkaorðurnar. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Mætti einfaldlega í vinnuna og gerði sitt besta

Spurður hvort hann hafi búist við að fá fálkaorðuna þegar kórónuveiran fór fyrst að breiðast út hér á landi í lok febrúar segir Víðir:

„Ég var ekkert að hugsa um það. Maður mætti bara í vinnuna á hverjum degi, gerði sitt allra besta og lagði sig allan í það.“

Að lokum hrósar hann þjóðinni fyrir samstöðuna í faraldrinum hingað til. 

„Þetta er viðurkenning til okkar allra fyrir það hvernig við stóðum saman í þessu.“

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert