Ellefu sektaðir og tveimur vísað úr landi

Lögreglustöðin við Hlemm.
Lögreglustöðin við Hlemm. mbl.is/Golli

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur birt ellefu Rúmenum sektarboð að upphæð 150 til 200 þúsund krónur fyrir brot á sóttkví, auk þess sem tveimur af þeim hefur verið birtur úrskurður Útlendingastofnunar um vísun úr landi.

Eftir á að koma í ljós hvort fleiri úr hópnum verður vísað úr landi, að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Embætti ríkislögreglustjóra annast framkvæmdina á því að vísa Rúmenunum úr landi en ekki er búið að ákveða hvenær hún verður, að sögn Ásgeirs Þórs.

Fyrir utan þessa ellefu sem birt hefur verið sektarboð af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fer lögreglan á Suðurlandi með mál Rúmenanna þriggja sem voru handteknir fyrst hér á landi grunaðir um þjófnað og fyrir að hafa brotið lög um sóttkví.

Að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi, er rannsókn málsins langt komin og mun henni ljúka á næstu dögum. Þremenningunum hefur ekki verið birt sektarboð en tveir þeirra eru í einangrun í sóttvarnahúsinu eftir að hafa greinst með kórónuveiruna. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun ákveða hvort þeim verður vísað úr landi í samráði við Útlendingastofnun.

Spurður út í andvirði þýfisins sem þeir stálu hér á landi þá gat Sveinn Kristján ekki nefnt nákvæma upphæð en sagði að ekki hafi verið um neinn stórþjófnað að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert