Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Arthur Pawel Wisocki og dæmt hann í fimm ára fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás á dyravörð á skemmtistaðnum Shooters árið 2018.
Dyravörðurinn er lamaður fyrir neðan háls eftir árásina. Dómurinn í héraðsdómi féll 20. febrúar 2019 og áfrýjaði Wisocki málinu til Landsréttar 8. mars 2019.
Niðurstaða héraðsdóms um sex milljóna króna miskabætur til dyravarðarins var einnig staðfest, sem og miskabætur til annars dyravarðar upp á 600 þúsund krónur.
Við ákvörðun refsingarinnar leit Landsréttur til þess að maðurinn hefði haft „styrkan og einbeittan vilja“ til árásarinnar á mennina tvo og að hún hafi verið undirbúin og unnin í félagi við aðra. Einnig var litið til þess hversu alvarlegar afleiðingar hlutust af annarri líkamsárásinni.
„Á hinn bóginn var ekki talið að honum hefði verið ljóst að afleiðingarnar af árás hans yrðu svo alvarlegar sem raun bar vitni,“ segir í niðurstöðu Landsréttar.
Wisocki var einnig dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.771.003 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns.