Óábyrgt að fallast á allar kröfur

Bjarni Benediktsson fjár­málaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjár­málaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir umræðuhefð í þinginu um launakjör opinberra stétta vera dapurlega. Í hvert sinn sem þingmenn ræði kjör opinberra stétta reyni þeir að ná höggi á ríkið með því að taka algjörlega upp málstað þess sem er að semja við ríkið hverju sinni. 

„Þetta er auðvitað fullkomlega ábyrgðarlaust,“ sagði Bjarni er hann svaraði óundirbúinni fyrirspurn frá Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar. Sagði Bjarni að Logi vildi ganga að öllum kröfum hjúkrunarfræðinga til að samningar gætu tekist, án þess að huga að afleiðingum þess fyrir vinnumarkaðinn í heild.

„Veirufaraldurinn hefur gert mikilvægi margra stétta – ekki síst stórra kvennastétta í heilbrigðisþjónustu – enn augljósari en áður, og að um sé að ræða kerfislega mikilvæga kvennastétt.  Það eru nefnilega ekki bara flugélög og bankar sem eru kerfislega mikilvægir, hæstvirtur ráðherra,“ sagði Logi sem sagðist telja að fjármálaráðherra kynna að hafa gleymt mikilvægi stéttarinnar á hjúkrunarheimilum, við heimahjúkrun og víðar þegar áhersla hans væri öll á skimun meðal ferðamanna.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Benti Logi á að kjarasamningar hjúkrunarfræðinga hafi verið lausir í eitt og hálft ár, og hjúkrunarfræðingar hafi ekki getað samið um laun sín síðan um nokkra hríð en lög voru sett á verkfall hjúkrunarfræðinga árið 2015, og var Bjarni einnig fjármálaráðherra þá. Spurði Logi þá hvort ekki væri tímabært að höggva á hnútinn og gefa samninganefnd ríkisins aukið rými til að semja við hjúkrunarfræðinga í ljósi þess að nú stefnir í verkfall hjúkrunarfræðinga á mánudag.

Því svaraði Bjarni til að ríkið hefði átt í viðræðum af fullri alvöru og mætt helstu kröfum, sem sneru að betra vinnuumhverfi, breyttri vaktavinnu og fækkun vinnustunda. Náðst hafi samkomulag um alla þætti nema launalið.

Beindi Bjarni þá orðum sínum að Loga. „Hvaða málflutning er háttvirtur þingmaður með? Hvaða kröfu er háttvirtur þingmaður með? Veit háttvirtur þingmaður ekki að það er ekki hægt að fallast á allar kröfur?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka