Yfirvofandi verkfall hjúkrunarfræðinga er mikið áhyggjuefni, að sögn Ölmu D. Möller landlæknis.
Þetta kom fram á blaðamannafundi almannavarna vegna kórónuveirunnar. Ótímabundið verkfall hjúkrunarfræðinga hefst á miðnætti 22. júní.
Alma sagði erfitt að veita heilbrigðisþjónustu með undanþágumönnun og ljóst að mikil röskun verði á starfsemi heilbrigðiskerfisins. Hún benti á að hjúkrunarfræðingar hafi starfað við smitrakningu og sýnatöku á landamærum.
Alma sagði mikilvægt að ná saman í viðræðum fyrir mánudaginn en ella þurfi að reiða sig á undanþágur. Sagðist hún vona að tekið yrði vel í þær.
Í máli hennar kom einnig fram að búið er að uppfæra smitrakningarappið og sagði hún augljóst að ferðamenn séu að nota það. 15. júní voru 143.300 komnir með smáforritið í símann sinn.
Í nýju uppfærslunni er hægt að eiga netspjall við heilsugæsluna og hringja í læknavaktina.