Ákæruvaldið í Þýskalandi sakar rússnesk yfirvöld um að hafa fyrirskipað morðið á Zelimkhan Khangoshvili, sem skotinn var til bana um hábjartan dag í almenningsgarðinum Kleiner Tiergarten í ágúst. Vadim K., sem er af rússneskum uppruna, er ákærður fyrir morðið, að því er fram kemur á vef BBC.
Rússnesk yfirvöld telja ásakanirnar úr lausu lofti gripnar og hafa alfarið neitað aðild að málinu en þýsk yfirvöld telja að Vadim K. hafi verið skipað af rússneskum yfirvöldum að ráða Khangoshvili bana í skiptum fyrir fjárhagslega þóknun. Markmiðið hafi verið að yfirbuga pólitískan andstæðing.
Fórnarlamb árásarinnar, Zelimkhan Khangoshvili, var georgískur hælisleitandi sem hafði verið búsettur í Þýskalandi frá árinu 2016. Hann hafði barist gegn rússneskum yfirvöldum sem leiðtogi hersveitar Tsjetsjena.