Samningslaus og smitaðist í vinnunni

„Þetta er ömurleg staða að lenda í alveg sama hvar …
„Þetta er ömurleg staða að lenda í alveg sama hvar maður stendur í lífinu, sama hvort að það sé húsmóðir, smiður eða lögreglumaður, ég held að þetta sé alltaf jafn mikið áfall. Líf fólks er sett á ís í óákveðinn tíma,“ segir Íris.

Íris Edda Heimisdóttir, lögreglukona sem smitaðist af kórónuveirunni við störf þegar hún tók þátt í aðgerðum vegna Rúmena sem höfðu brotið sóttkví og voru smitaðir af kórónuveirunni, segist hafa upplifað vonleysi, vonbrigði og hræðslu þegar hún uppgötvaði að hún væri smituð. Íris segir að atvikið sýni að semja þurfi við lögreglumenn sem hafa verið samningslausir í rúmt ár.

„Ég upplifði strax vonleysi, vonbrigði og hræðslu,“ segir Íris í samtali við mbl.is, spurð hvernig henni hafi liðið þegar hún uppgötvaði að hún væri smituð.

„Vonleysi yfir að vera komin í þessa stöðu vegna þess að ég var að sinna skyldu minni. Vonbrigði út í aðstæður, ég gerði ráð fyrir og sinnti mínu starfi með það í huga að landið væri lokað og var þessi staða því ekki eitthvað sem ég hafði hugsað að gæti komið upp þegar að eftir minni bestu þekkingu átti veiran að vera á niðurleið hér á landi. Hræðslu vegna tilhugsunar um það að vera að fara að eyða að lágmarki tveimur vikum ein, í einangrun að glíma við allskonar líkamleg veikindi og jafnvel andlegar áskoranir.“

Erfiðast að fá ekki að hitta börnin sín

Íris fékk til að byrja með væg flensueinkenni en henni hefur hrakað.

„Það hefur aðeins versnað í mikla hálsbólgu, særindi í hálsi, hor og slím sem nær niður í lungu, beinverki og algert raddleysi.“

Íris er búin að vera í einangrun í um þrjá daga og segir það erfiðasta við að vera smituð vera einangrunina, að vera kippt út úr samfélaginu, frá fjölskyldu sinni.

„Börnin mín eru tólf, fjögurra og eins árs. Þessi eins árs er mikil mömmustelpa svo þetta hefur tekið gríðarlega á fyrir bæði hana og mig. En ég á ótrúlega gott fólk að sem aðstoðar á öllum vígstöðvum.“

Það að við séum samningslaus er skammarlegt

Engir af Írisar nánustu þurftu að fara í sóttkví vegna smitsins en rakningarteymi almannavarna taldi ekki þörf á því.

Íris sagði frá smitinu á Facebook-síðu sinni í gær og vakti í því samhengi sérstaka athygli á samningsleysi lögreglumanna.

„Þetta er ömurleg staða að lenda í alveg sama hvar maður stendur í lífinu, sama hvort að það sé húsmóðir, smiður eða lögreglumaður, ég held að þetta sé alltaf jafn mikið áfall. Líf fólks er sett á ís í óákveðinn tíma. Ég lendi í þessari stöðu eftir að hafa verið að sinna skyldu minni sem lögreglumaður. Lögreglumenn eru framlínufólk, fólkið sem stendur vaktina allan sólarhringinn, fólkið sem fer inn í aðstæður sem að aðrir flýja út úr. Það að við séum samningslaus er skammarlegt. Það er ekki flókin aðgerð að leiðrétta laun lögreglumanna og standa við gefin loforð. Lögreglumenn eru ekki að fara fram á mikið meira en það, er það til of mikils ætlast?“

Íris segir að það sem hún lenti í sýni að kominn sé tími á að samið sé við lögreglumenn.

„Þetta sýnir þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir í dag. Það að starfa sem lögreglumaður og sinna almennum útköllum er hættulegasta starf á Íslandi í dag. Þetta staðfesta tölur úr vinnuslysaskráningu Vinnueftirlitsins. Lögreglumenn hafa slasast við handtökur og einnig í akstri. Lögreglumenn verða fyrir allskonar hótunum, þar sem ekki bara þeim er hótað heldur fjölskyldum þeirra einnig. Þetta eru afar streituvaldandi aðstæður. Ekki lagast streitan þegar gluggað er í launaseðilinn hver mánaðamót.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert