„Þetta er fáheyrt“

Skemmdir eftir vélsleðaakstur eru á mosagrónu svæði sem getur tekið …
Skemmdir eftir vélsleðaakstur eru á mosagrónu svæði sem getur tekið tugi ára að gróa ef ekki er gripið inn í og lagfært. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég man til þess að svona för hafi sést að vori. Þetta er fáheyrt, sem rennir stoðum undir það að þarna sé fólk á ferð sem kann sig ekki á viðkvæmum svæðum,“ segir Arnar Bergmann, ritari stjórnar Landssambands íslenskra vélsleðamanna.

Hann telur að ljót för eftir vélsleða sem fundust nýlega á mosagrónu svæði við mörk Friðlandsins að Fjallabaki séu eftir byrjendur í sportinu. Ljóst er að þau eru eftir vélsleða, eins og Umhverfisstofnun ályktaði um í tilkynningu fyrr í dag. Arnar segir að verið sé að skipuleggja ferð á staðinn til þess að laga gróðurinn og græða sárin eftir sleðann.

„Heilt yfir eru okkar félagsmenn náttúruunnendur sem velja sér vélsleða sem fararskjóta um náttúruna. Ég þykist því vita að þarna hafi óreyndir einstaklingar verið á ferð. Ég hefði helst viljað hitta þá sem þarna voru að verki til þess að fræða þá um hvernig við umgöngumst viðkvæma náttúru, sérstaklega nú þegar snjóa tekur að leysa og undirlagið er mjög viðkvæmt,“ segir Arnar við mbl.is.

Sem betur fer hefur LÍV sérfræðinga á sínum snærum, sem fara á staðinn fljótlega eftir helgi, að sögn Arnars. Hann segir að betra hefði verið að frétta af ummerkjunum annars staðar en í fjölmiðlum en að skiljanlegt sé þó að Umhverfisstofnun láti vita af öðrum eins skemmdum á náttúru landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert