Frá 2015 hafa ekki átt sér stað fleiri heimilisofbeldismál á Íslandi í einum mánuði en í maí 2020, sé tekið mið af málafjölda hjá lögreglu. Apríl 2020 fylgir fast á eftir, en í maí voru málin 106 og í apríl 101. Ástandið versnaði í kórónuveirufaraldrinum.
Tölfræðina gerði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra opinbera í svari við fyrirspurn Sigurðar Páls Jónssonar, þingmanns Miðflokksins, á alþingi í gær. Sigurður spurði um fjölda tilkynninga á þessu ári, hver þróunin hefði verið síðustu ár og loks hvort ráðherra hygðist fara í átak gegn vandanum.
„Heimilisofbeldismál voru 19% fleiri eftir fyrstu 23 vikur ársins 2020 en á sama tíma í fyrra,“ sagði Áslaug. „Þau voru aðeins 2% fleiri ef litið er til 2018. Fleiri brot hafa átt sér stað í sjö af níu embættum á fyrstu 23 vikum ársins en á sama tíma í fyrra en mesta aukningin var hjá þremur stærstu embættunum.“
Hún sagði þá að meðalfjöldinn þetta árið væri sambærilegur og 2018 en að hann hafi verið minni 2019. Á árunum 2017-2020 voru málin að meðaltali 75 á mánuði en á þessu ári var sú tala 88 á fyrstu fimm mánuðum ársins.
Eins og dómsmálaráðherra benti á er erfitt að meta eingöngu út frá gögnum lögreglu hvort brotum fari fjölgandi eða hvort það sé tilkynningum sem fari fjölgandi. Þó sé reynt að fá það fram til dæmis með þolendakönnun sem lögregla framkvæmir í upphafi hvers árs.
„Það er ríkur skilningur innan kerfisins á viðkvæmri stöðu þeirra sem hafa orðið fyrir ofbeldi í nánum samböndum og kynferðisofbeldi og mikill vilji til þess að bæta réttarstöðu þeirra og draga úr afleiðingum brotanna á heilsu þeirra og líðan,“ sagði Áslaug og taldi upp aðgerðir sem hefur verið og verður ráðist í til að sporna gegn vandanum.