Stærsti skjálftinn fannst í byggð

Stærsti skjálftinn fannst í byggð á Siglufirði.
Stærsti skjálftinn fannst í byggð á Siglufirði.

Skjálftahrina hófst við Gjögurtá um hádegisbil í dag og síðan hafa þar orðið hátt í 200 skjálftar. Skjálfti 3,4 að stærð varð klukkan 19:29 og fannst á Siglufirði.

„Í stuttu máli þá byrjaði virkni þarna upp úr hádegi í dag. Þetta er rétt rúma 20 kílómetra norðaustur af Siglufirði, það er kannski betra kennileiti,“ segir Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Á milli sjö og átta færðist aðeins meira líf í þessa hrinu og það eru komnir fimm skjálftar sem eru 3 eða stærri að stærð, og sá stærsti 3,4 klukkan hálfátta. Hann fannst á Siglufirði.“

Skjálftahrinan stendur enn yfir en þegar fréttin er skrifuð eru skjálftarnir orðnir 190 það sem af er degi.

Ekki útilokað að stærri skjálftar verði

Einar Bessi segir að ekki sé óvenjulegt að skjálftahrinur verði á svæðinu. „Akkúrat á þessu svæði hafa verið skjálftar af svipaðri stærðargráðu síðast 2018, en svo 2012 varð frekar stór hrina þarna. Þá vorum við að fá skjálfta sem voru stærri en 5.“

„Þetta eru flekahreyfingar og það er í raun ekkert útilokað að það verði stærri skjálftar þarna. Eins og við segjum oft með svona hrinur þá eru þær góð áminning fyrir fólk sem býr á þessu svæði að það er alltaf möguleiki og alltaf gott að kíkja yfir viðbrögð við skjálftum,“ segir Einar Bessi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert