Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir hvorki fyrirtækið né eiganda þess, Amgen, nokkru sinni hafa haft uppi áætlanir um að búa til söluvöru til fjárhagslegs ávinnings í tengslum við vinnu ÍE við skimun vegna kórónuveirunnar.
Við skimunina hefur ÍE safnað miklum gögnum um Íslendinga, sem margir hafa samþykkt að blóð þeirra sé tekið til rannsókna ásamt því sem það er skimað fyrir mótefnum fyrir kórónuveiru.
Við skimun og mótefnamælingar á tugum þúsunda Íslendinga gafst fólki, til viðbótar við að skrifa undir sjálfa sýnatökuna, kostur á að samþykkja þátttöku í annars vegar samstarfsrannsókn Landspítala og ÍE um COVID-19 og undirliggjandi sjúkdóma en hins vegar gafst þeim kostur á að samþykkja að ÍE gæti kannað blóðið í framtíðar læknisfræðilegum rannsóknum. Mikill fjöldi fólks samþykkti alla kostina.
Gagnrýnisraddir sem Kári vísar til í grein, sem birtist í Morgunblaðinu í dag um málið, hafa verið á þá leið að fyrirtækið sinni störfunum ekki aðeins í þágu baráttunnar gegn veirunni heldur einnig með það fyrir augum að komast yfir gögn til eigin nota og þar með til fjárhagslegs ábata, enda gögn gulls ígildi í iðnaði sem þessum.
Kári vísar þessu á bug: „Það bjó ekkert annað að baki þeirri skimun sem ÍE framkvæmdi eftir SARS-CoV-2 í íslendingum en löngun til þess að taka þátt í að hemja faraldurinn. Það sama á við um skimunina eftir mótefnum gegn veirunni,“ skrifar Kári.
Hann segir þó að fljótlega hafi komið á daginn að að vísindamennirnir væru í leiðinni að fá eitthvað fyrir sinn snúð.
„Það sem við fengum fyrir snúðinn var sú gleði sem fylgir því að uppgötva eitthvað nýtt um eðli sjúkdóma og heilsu. Við erum uppgötvanafíklar og nýr sjúkdómur sem ekkert er vitað um er hvalreki fyrir þá fíkn. Þetta var dópið beint í æð. Sem sagt við skimuðum ekki af góðmennsku eða fórnfýsi heldur til þess að hlúa að því samfélagi sem við búum og þannig að okkur sjálfum og síðan gerðum við það líka til þess að komast í þá vímu sem við lifum fyrir,“ skrifar Kári.
Kári rekur í greininni aðdraganda þess að ÍE hafi hafið skimun á Íslendingum, en þá hafði hann samband við stjórnendur Amgen og lýsti yfir áhuga sínum á því verkefni.
Svarið sem hann fékk, að sögn: „Í guðanna bænum gerðu það og bjóddu stjórnvöldum alla þá hjálp sem þú getur veitt.“
Kári skrifar: „Það vill svo til að Covid-19-faraldurinn hefur laðað fram það besta í svo mörgum og meira að segja harðsvíruðum kapítalistum eins og þeim sem stjórna lyfjaiðnaðinum. Stærstu lyfjafyrirtæki heims hafa heitið því að gera sitt besta til þess að búa til eins fljótt og hægt er bóluefni gegn veirunni og lyf til þess að lækna Covid-19 og dreifa þessu um allan heim án þess að græða á því fé. Þetta er einstakt og fallegt og svona á heimurinn að vera.“